Lögreglan kallar björgunarsveitir sér til aðstoðar vegna ófærðar í borginni

Dregið hafði úr umferðinni í borginni seint í kvöld og …
Dregið hafði úr umferðinni í borginni seint í kvöld og aðeins þrír bílar klukkan 23 á fjölförnustu gantamótum landsins, Miklubraut/Kringlumýrarbraut. Strætisvagnasamgöngur fóru úr skorðum vegna færðarinnar. mbl.is/Júlíus

Lögreglan í Reykjavík kallaði út björgunarsveitir sér til aðstoðar í kvöld vegna vandræða í umferðinni sakir mikillar ófærðar og snjókomu. Mjög þungfært var á tíunda tímanum í Árbæ, Breiðholti og Grafarvogshverfum og megingötur eins og Víkurvegur, Bæjarháls og Höfðabakki illfærar.

Um klukkan 22 hafði lögreglan orðið að koma mjög mörgum ökumönnum til aðstoðar sem fest höfðu bíla sína vegna ófærðar. Mikill bloti hefur verið snjónum og drepist á mörgum bílum er skafið hefur inn í vélarhúsin. Nokkuð hefur og verið um umferðaróhöpp og árekstra vegna veðursins en engin slys á fólki. Lögreglan hvatti fólk í kvöld til að halda sig heima en varðstjóri sagði að búið hefði verið að missa fólk á ferðina þegar veðrið skall á. Strætisvagnaferðir fóru úrs skorðum í austurhluta borgarinnar vegna færðarinnar og ekki hægt að halda úti fullum akstri á öllum leiðum. Nokkuð hefur einnig verið um umferðaróhöpp og árekstra í Kópavogi og Hafnarfirði og þungfært víða í báðum bæjunum þó reynt væri að halda götum opnum með því að mokað væri á fullu. Um klukkan 22 fak bíll útaf í Lögbergsbrekku en ekki var talið að slys hefðu orðið á fólki. Milli klukkan 19 og 20 urðu þrjú óhöpp og ein bílvelta í Hafnarfirði og við Arnarneshæð en þar teppti skafrenningur veginn. Þá var Reykjanesbrautin mjög þungfær orðin um og uppúr klukkan 22 en lögreglan í Keflavík hafði ekki þurft að koma bílum til aðstoðar. Í Reykjanesbæ var hífandi rok og rigning í kvöld. Klukkan 22 var 25 sekúndumetra vindur í Grindavík, 22 á Garðskagavita, 20 í Bláfjöllum, 19 í Þorlákshöfn, 17 á Akranesi, 15 í Reykjavík. Annars staðar var vindur mun hægari. Þá var vindur 24 sekúndumetrar undir Eyjafjöllum.

Búist við stormi í nótt

Samkvæmt veðurhorfum Veðurstofunnar klukkan 22:10 var búist við stormi, eða meira en 20 m/s á Suðurlandi, við Faxaflóa, Breiðafjörð, á Suðausturlandi og miðhálendinu í kvöld og nótt. Búist er mikilli ofankomu á Suðausturlandi og varað var við umferð á svæðum þar sem hætta kanna að vera á snjóflóðum. Á Suðurlandi og við Faxaflói var spáð suðaustan 18-25 m/s vindi og slyddu eða rigningu en í fyrramálið á að snúast í vestan 10-13 m/s með slydduéljum og 0 til 4 stiga hita. Samskonar veðri var spáð við Breiðafjörð, á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra. Á Suðausturlandi bjóst Veðurstofan við austan og suðaustan 18-25 sekúndumetra vindi og mikilli slyddu eða rigningu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert