Almenn krafa á Alþingi um lokun Sellafield

Þingmenn úr öllum flokkum tóku á Alþingi í dag undir kröfu um að bresku kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Sellafield verði lokað og losun geislavirka efnisins teknisíum-99 í sjóinn verði hætt. Málið var rætt utan dagskrár á Alþingi og lýstu þingmenn því yfir að Bretar hefðu brugðist trausti á alþjóðavettvangi eftir að upplýst var að skýrslur um öryggiseftirlit í Sellafield hefðu verið falsaðar.

Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, tók málið upp utan dagskrár og spurði Siv Friðleifsdóttur umhverfisráðherra hvort ekki væri ljóst að grípa þyrfti til harðari aðgerða gegn Sellafield-verinu og hvort ekki væri ljóst að sendibréf, símtöl og ályktanir fengju litlu áorkað. Siv sagði að stjórnvöld á Norðurlöndunum hefðu lengi haft miklar áhyggjur af Sellafield en skýrsla sem birtist sl. föstudag um öryggismál versins hefði komið öllum á óvart, ekki síst breskum stjórnvöldum. Ljóst væri að alvarlegir gallar væru varðandi öryggiseftirlit og sagði Siv að þeir settu að sínu mati spurningarmerki við endurvinnslu kjarnorkueldsneytis. Þingmenn sem tóku þátt í umræðunni voru á einu máli um að leggja þyrfti áherslu á að losun teknesíum-99 yrði hætt hið fyrsta og ella yrði Sellafield-verinu lokað. Ólafur Örn Haraldsson þingmaður Framsóknarflokks sagði ljóst að Bretar hefðu brugðist því trausti sem Íslendingar hefðu sýnt þeim og ekki væri lengur hægt að taka alvarlega þær upplýsingar sem þeir hefðu látið í té um verið og undir þetta tóku fleiri þingmenn. Á ráðherrafundi OSPAR-samningsins í júlí á síðasta ári var það markmið sett að árið 2020 yrði losun geislavirkra efna í umhverfi sjávar ekki merkjanlega yfir náttúrulegum bakgrunnsgildum. Á fundi OSPAR-samningsins sl. sumar unnu fulltrúar Íslands í nánu samstarfi við fulltrúa Írlands og Danmerkur að tillögu um að þrýsta enn frekar á um aðgerðir, þannig að ná megi umræddum markmiðum ráðherrafundarins sem fyrst fyrir árið 2020. Fram kom sú skoðun í umræðunni í dag að það væri gersamlega óviðunandi að losun teknesíum-99 verði leyfð til ársins 2020.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert