Olíufélag sækir um olíuleitarleyfi

Erlent olíufélag sótti í febrúar formlega um leyfi til olíu- og gasleitar í íslenskri lögsögu. Sérfræðingur á vegum fyrirtækisins kom til Íslands í fyrra til að afla upplýsinga um möguleika á olíuleit og olíuvinnslu og lýsti yfir áhuga fyrirtækisins á að fá leyfi til olíu- og gasleitar allt frá Jan Mayen hrygg í norðri að Hatton-Rockall banka í suðri. Hann lýsti einnig yfir áhuga á setlagasvæðinu fyrir Norðurlandi en taldi það vera sísta svæðið.

Þetta kom fram á Alþingi í dag í svari Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðarráðherra við fyrirspurn Guðmundar Hallvarðssonar þingmanns Sjálfstæðisflokks. Fram kom hjá ráðherranum að tvö olíufélög hefðu lýst yfir áhuga á olíuleit en annað hefði einungis óskað eftir almennum upplýsingum.Valgerður sagði að fyrirtækið sem sótti um olíuleitarleyfið hefði lagt áherslu á að grundvallarforsenda þess að það legði fé í olíu- og gasleit í íslenskri lögsögu væri að sett yrðu lög um leit að olíuefnum og vinnslu þeirra ásamt reglum um veitingu leitar- og vinnsluleyfa.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert