Íslenska ríkið var í dag sýknað í Héraðsdómi Reykjavíkur af öllum kröfum Kio Alexanders Briggs, en hann hafði farið fram á 27 milljónir króna í skaðabætur fyrir frelsissviptingu.
Ár 2000, fimmtudaginn 24. febrúar er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg, kveðinn upp dómur í máli nr. E-5069/1999:
Kio Alexander Ayobambele Briggs
gegn
íslenska ríkinu.
Mál þetta, sem dómtekið var 27. janúar s.l., er höfðað með stefnu birtri 14. september s.l.
Stefnandi er Kio Alexander Ayobambele Briggs, breskur ríkisborgari, fæddur 4. september 1972, til heimilis að Fífuseli 14, Reykjavík.
Stefndi er íslenska ríkið og fyrir hönd þess er stefnt dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 27.042.523 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þingfestingardegi 21. september s.l. til greiðsludags. Þá er þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 21. september 2000. Þá er gerð sú krafa, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, samkvæmt reikningi auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. Stefnanda var með bréfi dómsmálaráðherra, dagsettu 20. september s.l., veitt gjafsókn vegna þessa máls með vísan til 178. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 2. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991.
Dómkröfur stefnda eru þær að sýknað verði af öllum kröfum stefnanda og honum verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði verulega lækkaðar og málskostnaður þá felldur niður.
Málavextir.
Að morgni þriðjudagsins 1. september 1998 kom stefnandi með flugvél til Keflavíkurflugvallar frá Alicante á Spáni. Hafði hann með sér farangur í allstórri íþróttatösku, sem flutt hafði verið í farangursrými flugvélarinnar. Við tollskoðun fannst í henni pakki með 2031 "ecstasy"-töflu með efninu metýlendíoxímetamfetamín (MDMA) sem er bannað hér á landi, sbr. reglugerð nr. 16, 1986 um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna. Töflurnar reyndust vega 290 – 295 mg. hver og í hverri þeirra voru 80 – 81 mg. af efninu metýlendíoxímetýlamfetamínklóríð. Töflur þessar voru í tveimur plastpökkum sem aftur var pakkað inn í rauðan og hvítan innkaupapoka, einnig úr plasti. Ekki fundust fingraför á umbúðunum og kannaðist stefnandi ekki við töflurnar, kvaðst aldrei hafa séð þær áður. Í töskunni var fatnaður og skór, bækur og aðrir persónulegir munir. Þar á meðal voru síðar íþróttabuxur sem stefnandi hefur ekki kannast við að eiga. Í vasa á þeim fundust tveir bréfmiðar með rissmyndum sem talið hefur verið að séu af "komusal" í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Stefnandi var með nokkra spænska peseta á sér en ekki aðra fjármuni eða greiðslukort. Í frumskýrslu Elíasar Kristjánssonar deildarstjóra Tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli, sem hann staðfesti við meðferð sakamálsins fyrir dómi, kemur fram að stefnandi var færður til tollskoðunar í leitarklefa. Hann hafi sagt að hann væri að koma til landsins sem ferðamaður, óvíst í hve langan tíma, og ætlaði að gista á hóteli. Stefnandi er breskur ríkisborgari en gaf upp heimilisfang í Madrid. Stefnandi neitaði sök frá upphafi og sagðist ekki hafa vitað af fíkniefnunum í íþróttatöskunni.
Stefnandi var færður til yfirheyrslu á lögreglustöðina við Hverfisgötu og að kvöldi sama dags var stefnandi færður í Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem tekin var fyrir krafa lögreglustjórans í Reykjavík um að honum yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 14. september 1998 kl. 16:00 vegna gruns um brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga. Héraðsdómari tók kröfuna til greina með úrskurði uppkveðnum 2. september 1998 og með dómi upp kveðnum 7. september sama ár staðfesti Hæstiréttur Íslands gæsluvarðhaldsúrskurðinn. Var talið að fullnægt væri skilyrðum a og b liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Gæsluvarðhald stefnanda var framlengt með úrskurði 14. september sama ár til 5. október sama ár og var sá úrskurður ekki kærður til Hæstaréttar. Þann dag var gæsluvarðhaldið framlengt til 30. nóvember sama ár og með dómi Hæstaréttar upp kveðnum 13. október sama ár var úrskurðurinn staðfestur. Var gæsluvarðhaldið reist á ákvæðum a og b liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, svo og 2. mgr. sömu lagagreinar. Gæsluvarðhaldið var síðan framlengt til 11. janúar 1999 og staðfesti Hæstiréttur þann úrskurð 4. desember 1998. Ákæra var gefin út á hendur stefnanda 17. desember sama ár og með úrskurði upp kveðnum 8. janúar 1999 var gæsluvarðhald stefnanda framlengt til þess tíma er dómur gengi í máli hans, þó ekki lengur en til 8. mars 1999. Sá úrskurður var ekki kærður til Hæstaréttar. Með úrskurði upp kveðnum 8. mars 1999 var gæsluvarðhald stefnanda enn framlengt og skyldi hann sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengi í máli hans, en þó ekki lengur en til 17. mars sama ár. Dómur gekk í máli stefnanda í Héraðsdómi Reykjavíkur 11. mars sama ár. Var stefnandi dæmdur í 7 ára fangelsisvist og segir svo m.a. í dóminum: "Eins og áður er komið fram var það Guðmundur Ingi Þóroddsson sem ljóstaði (svo) upp um ákærða í því skyni að fá einhverja ívilnun hjá lögreglu eða ákæruvaldi í öðru máli sem hann átti hlut að. Verður ekki byggt á framburði hans í málinu. - Fyrir liggur að ákærði var með 2031 töflu sem innihélt efnið metýlendíoxímetýlamfetamín- klóríð (MDMA) í tösku sinni þegar hann kom til landsins hinn 1. september sl. Ákærði neitar sök og hefur borið því við að hafa ekki vitað það að töflurnar væru í töskunni og einhver hafi því komið þeim þar fyrir án hans vitneskju. Frásögn ákærða er almennt losaraleg og ekki trúverðug. Þykja eftirtalin atriði m.a. veikja hana mjög: Ákærði hefur verið óstöðugur í skýrslum um það hvar hann dvaldi áður en hann fór til Íslands og hverja hann umgekkst. Hann hefur neitað að skýra frá nafni stúlkunnar sem hann segir hafa hjálpað sér að pakka niður í töskuna og enn fremur neitað að skýra frá heimilisfangi sínu á Benidorm og borið fyrir sig haldlitlar ástæður. Þá hefur hann verið óstöðugur í frásögn sinni um það hvernig hann fékk farseðilinn í hendur. Frásögn hans um fólk og atvik á flugvellinum í Alicante er í andstöðu við það sem aðrir hafa borið, þar á meðal eitt óaðfinnanlegt vitni, Ragnheiður Karítas Pétursdóttir, fararstjóri. Ákærði hefur sagt óljós og mótsagnakennd deili á manni þeim sem hann telur vera kunningja sinn og ók honum á flugvöllinn í Alicante. Þá hefur frásögn hans um kreditkortið sem hann segist hafa verið með verið óstöðug. Hann hefur og neitað að gefa upplýsingar um kortið og eiganda þess og borið fyrir sig haldlitla ástæðu. Þegar allt þetta er virt þykir verða að hafna frásögn ákærða og telja að hann hafi vísvitandi og í ágóðaskyni flutt fíkniefnin til landsins til þess að þeim yrði dreift hér á landi."
Samdægurs var gæsluvarðhald stefnanda framlengt meðan frestur til að lýsa áfrýjun stæði, þó eigi lengur en til 8. apríl sama ár. Stefnandi lýsti yfir áfrýjun málsins til Hæstaréttar og með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur upp kveðnum 15. mars var gæsluvarðhald stefnanda framlengt meðan mál hans væri til meðferðar í Hæstarétti, þó eigi lengur en til 30. júní sama ár. Með dómi Hæstaréttar upp kveðnum 20. maí sama ár var hinn áfrýjaði dómur og meðferð málsins í héraði frá og með þinghaldi 25. janúar 1999 ómerkt og var málinu vísað heim í hérað til nýrrar aðalmeðferðar og dómsálagningar. Því var jafnframt beint til héraðsdómara að hann neytti heimildar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 til að kveðja tvo aðra héraðsdómara til setu með sér í dómi við nýja aðalmeðferð málsins. Segir svo meðal annars í dómi réttarins: "Í hinum áfrýjaða dómi greinir frá framburði ákærða og vitna í málinu. Meðal þeirra er Guðmundur Ingi Þóroddsson, sem starfað hafði á sama skemmtistað og ákærði í Benidorm og veitti honum gistingu í íbúð sinni þar síðustu næturnar fyrir brottför hans, auk þess sem hann annaðist um útvegun á flugfarseðli fyrir ákærða og láni fyrir fargjaldinu, svo sem um getur í héraðsdómi. - Við aðalmeðferð málsins í héraði 25. janúar 1999 skýrði þetta vitni frá því, að það hefði kvöldið fyrir brottför ákærða frá Spáni hringt í lögreglumann í Reykjavík, sem það þekkti frá fyrri tíð, og boðið fram upplýsingar um flutning á fíkniefnum til Íslands í þeirri von að fá að njóta ívilnunar af hálfu lögreglunnar í eldra máli, sem beinst hefði að því sjálfu. Í framhaldi af því hefði vitnið síðan átt símtal við lögreglumann í rannsóknardeild lögreglunnar í Reykjavík og sagt honum, að ákærði væri á leið til landsins með fíkniefni daginn eftir. Lögreglumenn þessir staðfestu fyrir dóminum, að vitnið hefði sagt þeim frá ferð ákærða og gefið í skyn, að það óskaði eftir einhverju á móti, en af þeirra hálfu hefði því verið tjáð, að loforð um ívilnanir vegna þessarar uppljóstrunar kæmu ekki til greina. Fyrir lá, þegar ákært var í málinu, að lögreglunni hefði borist vísbending um, að fíkniefni kynnu að verða flutt til landsins í þetta sinn, en ekki varð ljóst fyrr en við aðalmeðferðina, að hún væri frá vitninu komin. - Í niðurstöðuþætti hins áfrýjaða dóms er því lýst, að Guðmundur Ingi Þóroddsson hafi ljóstrað upp um ákærða og talið sig gera það í þágu eigin hagsmuna, og verði af þeim sökum ekki byggt á framburði hans í málinu. Þessa ályktun héraðsdómarans og þá reifun á framburði ákærða sjálfs, sem á eftir fer, verður að skilja svo, að dómarinn hafi afráðið að virða framburð þessa vitnis að vettugi og leggja ekki mat á þýðingu hans í sambandi við sakargiftirnar á hendur ákærða, hvort heldur til hags eða óhags honum, heldur dæma um málið á grundvelli þeirra annarra gagna, sem fram væru komin. Ljóst er þó, að framburðurinn lýtur að atvikum, sem máli geta skipt um skýringu á atferli ákærða og þeim verknaði, sem honum er gefinn að sök. Telja verður að því athuguðu, að dómaranum hafi ekki verið rétt að víkja þessum framburði til hliðar, heldur borið að leggja mat á trúverðugleika og þýðingu framburðarins og taka rökstudda afstöðu til hans eftir því mati, hliðstætt öðrum sönnunargögnum, sbr. VII. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála."
Héraðsdómur Norðurlands eystra hafnaði daginn eftir gæsluvarðhaldskröfu ákæruvaldsins. Stefnandi var þó úrskurðaður í farbann þar til dómur gengi í máli hans í héraði, þó eigi lengur en til 15. september sama ár. Hæstiréttur staðfesti þennan úrskurð með dómi 27. maí sama ár. Sá dómari er dæmdi í málinu í héraði vék sæti við hina nýju meðferð málsins og var dómurinn þá skipaður þremur héraðsdómurum. Dómur var kveðinn upp 30. júní 1999 og varð niðurstaðan sú að stefnandi var sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins, en ofangreindar MDMA töflur voru gerðar upptækar. Í dóminum segir svo m.a: "Þegar allt framangreint er virt þykir verða að leggja framburð ákærða um málsatvik í meginatriðum til grundvallar í málinu. Með vísan til 46. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 þykir vera svo mikill vafi á því að ákærða hafi verið kunnugt um að fíkniefnin voru í tösku hans við komu hans til landsins greint sinn að sýkna beri hann af kröfu ákæruvaldsins um refsingu."
Samdægurs var farbann stefnanda framlengt með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur og skyldi það standa þar til dómur Hæstaréttar félli í máli hans. Hæstiréttur staðfesti úrskurðinn með dómi upp kveðnum 2. júlí 1999 og bannaði honum för úr landi meðan mál hans væri til meðferðar í Hæstarétti, þó ekki lengur en til 1. október sama ár.
Endanlegur dómur í máli stefnanda var kveðinn upp í Hæstarétti Íslands 16. júlí 1999 og var það niðurstaða þriggja hæstaréttardómara af fimm að staðfesta sýknudóm Héraðsdóms Reykjavíkur. Segir svo meðal annars í dómi réttarins: "Sem ferðamaður milli landa hlýtur ákærði sem aðrir að sæta því, að hann verði talinn bera ábyrgð á farangri sínum og því, sem í fórum hans kann að finnast, nema sérstakar ástæður leiði til annars. Sú staðreynd, að fíkniefni reyndust vera í vörslum hans við komuna til landsins getur þó ekki sjálfkrafa leitt til þess, að hann verði látinn bera refsiábyrgð á flutningi þeirra, þótt hún hljóti hins vegar að hafa áhrif á sönnunarstöðu í málinu. - Atvik máls þessa eru sérstæð að ýmsu leyti, en einkum vegna þess, að leitin í farangri ákærða fór fram í beinu tilefni af vísbendingu frá þeim manni, sem mesta aðstoð veitti honum við að komast til landsins. Samkvæmt framburði Guðmundar Inga Þóroddssonar hafði hann ekki aðeins veitt ákærða húsaskjól og ýmsan atbeina við undirbúning ferðar hans hingað, heldur hafði hann það nánast í hendi sér, hvort ferðin yrði farin þennan dag eða ekki. Eigi að síður var það hann, sem hafði samband við lögreglu hér á landi til að tilkynna henni, að fíkniefni myndu verða í farangri ákærða. - Við fyrri áfrýjun málsins var sá annmarki talinn vera á meðferð þess í héraði, sem fyrr segir, að dómari hefði ekki lagt mat á framburð þessa vitnis með viðhlítandi hætti. Eftir nýja meðferð málsins liggur nú fyrir dómur þriggja héraðsdómara, þar sem framburðurinn er metinn ásamt öðrum sönnunargögnum. Er álit dómaranna meðal annars á þann veg, að sú frásögn vitnisins, að ákærði hafi sagt sér frá því, að hann ætlaði að flytja fíkniefni til landsins og að það hafi séð hann koma þeim fyrir í tösku sinni, sé ekki trúverðug. Í héraðsdóminum segir réttilega, að meta verði framburð Guðmundar Inga í ljósi þeirra hagsmuna, sem hann taldi sig sjálfur eiga að gæta. Skilja verður dóminn svo, að mat á sönnunargildi framburðarins hafi ekki ráðist af þessu einu, heldur einnig af framkomu vitnisins fyrir dóminum og samanburði við annan framburð, sem á var hlýtt. Eru ekki efni til þess, eins og málið horfir við hér fyrir dómi, að draga niðurstöður matsins í efa. - Þegar þáttur vitnisins Guðmundar Inga er virtur ásamt öðru, sem fram er komið í málinu, og þrátt fyrir rangar staðhæfingar ákærða um ákveðin atriði í aðdraganda flugferðarinnar til Íslands, er ekki unnt að útiloka með öruggri vissu, að vitnið eða einhver á þess vegum hafi komið efnunum fyrir í farangrinum án vitundar ákærða. Verður að öllu athuguðu að fallast á það með héraðsdómi, að svo mikill vafi leiki á því, að ákærði hafi vitað af efnunum í farangri sínum, að dæma verði hann sýknan saka, en önnur sakargögn til viðbótar mati dómsins á sönnunargildi munnlegs framburðar nægja ekki til þess að hnekkja þeirri niðurstöðu, sbr. 46. gr. laga um meðferð opinberra mála."
Í sératkvæði Hæstaréttar segir svo m.a.: "Þekkt er að þeir sem flytja fíkniefni til landsins bera því gjarnan við að þeir hafi ekkert vitað um tilvist þeirra í farangri sínum svo sem ákærði gerði. Hitt er einnig þekkt að fíkniefnum sé komið fyrir í farangri flugfarþega án vitundar þeirra. Verður ekki úr trúverðugleika frásagnar ákærða skorið nema að kanna sögu þá, sem hann sagði tollvörðum og lögreglu og síðan fyrir dómi. Ákærði hefur verið óstöðugur í skýrslum um ferðir sínar, dvalarstaði og hverja hann umgekkst síðustu daga fyrir förina til Íslands. Hann hefur neitað að skýra frá nafni stúlku, sem hann segir að hafi verið viðstödd, þegar hann bjó um farangur sinn fyrir Íslandsförina. Hann hefur ennfremur neitað að skýra frá dvalarstað sínum á Benidorm, utan þess er hann dvaldi í íbúð vitnisins Guðmundar Inga, og borið fyrir sig ástæður, er telja verður haldlitlar í ljósi þeirra alvarlegu viðurlaga, sem eru við því að flytja fíkniefni til landsins. Þá kemur frásögn hans um hvernig hann fékk farmiðann til Íslands ekki heim við það, sem telja verður fullsannað, svo sem ráðið verður af héraðsdómi. Frásögn hans um atvik á flugvellinum í Alicante, hvaða fólk hann hafði þar samband við og hverjir óku honum út á flugvöll er sama marki brennd, eins og fram kemur í niðurstöðukafla héraðsdóms. - Þegar ákærði kom til landsins var hann félaus utan þess að í tösku hans fundust 30 pesetar og 45 hollensk cent. Hann var hvorki með greiðslukort né tékkhefti. Í fyrstu skýrslu ákærða hjá lögreglu 1. september 1998 kvaðst hann hafa verið með greiðslukort, en 3. september sagðist hann sennilega hafa gleymt því í íbúð sinni í Benidorm. Ítrekar aðspurður kvaðst hann ekki hafa vitað að hann væri ekki með greiðslukortið, fyrr en sér hefði verið sagt það við skýrslutökuna. Hinn 10. september skýrði hann lögreglu svo frá að hann væri skráður fyrir greiðslukorti, en neitaði að svara því hjá hvaða greiðslukortafyrirtæki það væri. Við skýrslugjöf hjá lögreglu 25. september bar ákærði að greiðslukortið tilheyrði vinkonu sinni, sem hann vildi ekki að blandaðist í málið. Fyrir dómi skýrði ákærði frá því að hann hefði ekki greiðslukort sjálfur, en hefði leyfi til að nota greiðslukort vinkonu sinnar, hvort sem hann væri einn á ferð eða í fylgd með henni. Aðspurður um hvort hann hefði ekki búist við að lenda í vandræðum með því að framvísa greiðslukorti annars manns svaraði hann því einu að þetta væri gullkort. Frásögn hans um greiðslukortið hefur þannig verið óstöðug og hvorki fullnægjandi né trúverðug. Skýringar hans um hvernig hann hugðist nota kortið hérlendis eru fjarstæðukenndar. - Þegar ákærði var handtekinn var hann einn síns liðs og févana. Hann hafði ekki komið til Íslands áður og var vegalaus að því er hann hefur upplýst. Hingað kom ákærði klæðlítill án þess að þekkja til aðstæðna, með þær einu skýringar fyrst að hann ætlaði að dveljast hér sem ferðamaður, en síðan að hann ætlaði á sjóinn. - Þegar þess er gætt að verulegt magn fíkniefna fannst í fórum ákærða, og alls annars sem að framan er rakið, verður að telja að ákæruvaldinu hafi tekist að sanna sekt ákærða og sé hún hafin yfir allan velígrundaðan vafa."
Rétt þykir að gera ítarlega grein fyrir framburði stefnanda við rannsókn og dómsmeðferð sakamálsins eins og honum er lýst í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 1999.
Í skýrslu, sem stefnandi gaf hjá lögreglunni í Reykjavík síðar um komudaginn, kvaðst hann hafa búið á Benidorm og tilgreindi heimilisfang þar sem reyndist vera heimilisfang tveggja íslenskra manna. Kvaðst hann hafa unnið sem öryggisvörður á skemmtistað á Benidorm. Kvaðst hann hafa pakkað niður í töskuna í íbúð sinni á Benidorm ásamt vinstúlku sinni tveim dögum áður en hann fór til Íslands. Hann hafi svo skilið töskuna eftir í íbúðinni og brugðið sér frá. Engir aðrir en þau tvö hafi haft aðgang að íbúðinni. Seinna hafi hann tekið töskuna og farið á strætisvagnastöð þar sem hefði verið fjöldi manns, bæði Íslendingar og Spánverjar. Hann hafi þurft að bregða sér í símann og skilið töskuna eftir á gólfinu meðan hann talaði í símann og gætu það hafa verið tíu mínútur. Þegar hann kom í flugstöðina hafi hann skilið töskuna eftir meðan hann brá sér á salerni. Í bæði skiptin hafi taskan verið eftirlitslaus og ólæst. Hann hafi veitt því eftirtekt í flugstöðinni að búið var að færa töskuna og að annar farangur hafi verið þar hjá henni. Stefnandi kvaðst hafa komið hingað í atvinnuleit og ætlað að reyna fyrir sér í sjómennsku. Hann hafi hitt íslenska sjómenn á Spáni sem hafi sagt honum að hann gæti unnið sér inn góð laun á sjó. Hann kvaðst enga Íslendinga þekkja persónulega heldur aðeins hitt fólk sem kom til Spánar í frí. Hann kvaðst hafa keypt farseðilinn á ferðaskrifstofu í Benidorm fyrir 40.000 peseta. Hann hafi verið með lítið af peningum á sér en hins vegar með greiðslukort. Aðspurður um það hvort hann noti fíkniefni sagði stefnandi: „Nei, og hef aldrei gert. Ég stunda hnefaleika og nota ekki efni. Ég stunda mína vinnu en nota ekki fíkniefni. Ég hef aldrei setið í fangelsi og hef hreina sakaskrá."
Stefnandi gaf aðra skýrslu hjá lögreglunni 3. september 1998. Þar kom fram hjá stefnanda, er honum hafði verið skýrt frá því að í farangri hans hefðu einungis fundist nokkrir pesetar og ekkert greiðslukort, að hann teldi að hann hefði gleymt greiðslukortinu heima hjá sér. Þá skýrði hann frá því að hann hafi kynnst Íslendingi sem kallaður væri Gummi og ræki bar á skemmtistað. Gummi hafi selt sér farseðilinn á 40.000 peseta þar sem hann ætlaði ekki að nota hann og látið ferðaskrifstofu, sem rekin er í einu hótelinu þarna, breyta nafninu á farseðlinum. Gaf stefnandi þá skýringu á þessum breytta framburði sínum að löggæslumenn hafi spurt sig fyrir hvern hann væri að vinna og hann óttast að lögreglan teldi að hann hefði verið að flytja efnið fyrir þennan Gumma ef hann hefði sagt að Gummi hefði aðstoðað hann. Þá sagði stefnandi að hann hafi dvalist í íbúð Gumma síðustu tvo dagana áður en hann flaug hingað. Þar hafi verið fleiri Íslendingar, um fimm talsins, sem einnig voru á leið hingað. Það hafi verið eins og allir, sem voru á leið til Íslands, þyrftu að koma til Gumma. Þá sagði stefnandi efnislega þetta: Ég óska eftir því að skýra frá öllu í sambandi við þetta mál og óska eftir því að samvinna mín verði til þess að ég fái vægari dóm. Hann tók fram að hann hafi ekki sett fíkniefnin í tösku sína. Þá sagði hann frá því að hann hafi heyrt Gumma tala um það að á Íslandi væri margt fólk sem ræki skemmtistað eða plötuútgáfu og væri alltaf til í að kaupa mikið af pillum. Ef til vill hefði Gummi eða einhver vina hans sett töflurnar í töskuna. Maður að nafni Benni hafi sagt sér að Gummi og vinir hans væru alltaf teknir í leit hjá tollgæslunni þegar þeir kæmu til Íslands. Kvaðst hann telja að Gummi eða einhver þeirra sem í íbúðinni voru hafi laumað þessu í töskuna í þeirri von að ekki yrði leitað hjá honum. Hann kvað mikla fíkniefnaneyslu hafa átt sér stað þarna í íbúðinni og menn þar verið að tala um að þeir hafi sent fíkniefni í pósti til Íslands. Stefnanda var sýnt ljósrit af miðunum sem fundust í buxnavasa í tösku hans. Hann kvaðst ekki eiga íþróttabuxurnar, sem miðarnir voru í, og ekki heldur þær stuttbuxur, sem voru vafðar utan um fíkniefnin sem voru í töskunni. Hann kvaðst ekki hafa fengið miðana afhenta en aftur á móti hafi hann séð Gumma rissa á þá og hafi hann þá verið að tala við kunningja sinn sem fór heim til Íslands daginn eftir. Þeir hafi talað íslensku og hann ekki skilið hvað þeim fór á milli. Gæti hann ekki sagt hvað þessar teikningar þýddu. Stefnandi var spurður af hverju hann hafi komið hingað félaus og aðeins með léttan klæðnað og sagði sem fyrr að hann hafi talið sig vera með greiðslukort sitt þegar hann kom til landsins. Kvaðst hann eins hafa átt von á því að honum líkaði ekki vinnan, yrði sjóveikur og þess háttar. Annars hafi hann ætlað að dveljast hér á landi í tíu mánuði. Auk þess hafi honum skilist að hér á landi væri sjómönnum útveguð hlífðarföt. Kvaðst hann hafa fengið upplýsingar um aðstæður hér frá íslenskum sjómönnum, sem hann hafi hitt á Spáni, og álitið að ef hann færi niður á bryggju fengi hann vinnu og þar með peninga. Hann ítrekaði að hann hafi ekki vitað betur en að hann væri með kreditkortið meðferðis og ekki hafa komist að því fyrr en við yfirheyrsluna að svo var ekki. Þá sagðist hann hafa treyst Gumma.
Stefnandi gaf enn skýrslu í málinu 10. september. Hann var spurður hver stúlkan væri sem hafi hjálpað honum að pakka niður. Hann sagðist ekki mundu skýra frá nafni hennar eftir þá meðferð sem hann hafi fengið hjá lögreglunni. Þá sagðist hann ekki muna heimilisfangið þar sem hann gekk frá farangri sínum. Hann breytti svo framburði sínum um þetta og sagðist ekki vilja gefa upp þetta heimilisfang þar sem hann óttaðist að lögreglan myndi áreita saklausa vini hans sem hafi skotið yfir hann skjólshúsi. Hann kvað það heimilisfang sem hann hafi gefið upp vera heimilisfang Gumma þar sem hann hafi búið tvo síðustu dagana fyrir brottförina. Hann kvaðst vera skráður fyrir greiðslukortinu sem hann hafi verið með en neitaði að svara hvaða fyrirtæki hafi gefið það út. Aðspurður kvaðst hann undanfarin ár hafa starfað við öryggisvörslu, verið útkastari á skemmtistöðum, tekið þátt í að skipuleggja tónleika, unnið við blaðamennsku og verið atvinnumaður í amerískum fótbolta. Þá skýrði stefnandi ítarlegar frá athöfnum sínum síðustu dagana fyrir ferðina hingað til lands. Hann kvaðst hafa ætlað að fara til Íslands og dveljast þar í tíu mánuði. Hann hafi verið að ræða þetta við Gumma og sagt að hann yrði að kaupa farmiða báðar leiðir og sagt að það væri dýrt. Gummi hafi þá boðið sér farmiða sem hann ætti og gilti aðra leiðina og hann þyrfti ekki að nota. Kvaðst stefnandi hafa keypt af honum miðann daginn áður en hann fór til Íslands. Hann hafi farið með farangur sinn til Gumma milli klukkan 10 og 12 að kvöldi 30. ágúst. Gummi hafi verið heima og annar Íslendingur sem hafi verið sofandi, en hann viti ekki hvað hann heitir. Kvaðst hann hafa farið þaðan á næturklúbb og skilið farangurinn eftir og ekki komið aftur heim til Gumma fyrr en um morguninn. Þá hafi verið þar nokkrir Íslendingar sem hann ekki þekkti. Taldi hann að einn þeirra ætti buxurnar með miðunum sem fundust í tösku hans við komuna til landsins. Kvaðst hann hafa lagt sig í sófa en farangurinn hafi verið inni í svefnherbergi. Hann hafi ekki dvalist þarna lengi og farið út til þess að fá sér að borða og þegar hann kom aftur hafi fólk verið þarna ennþá. Vinstúlka hans hefði verið í för með honum og þau farið aftur og hann hafi ekki komið þar aftur fyrr en um klukkan fimm morguninn eftir og þá tekið töskuna. Kunningi Gumma hafi ekið sér út á flugvöll. Það hafi atvikast þannig að hann hafi ætlað með rútu á flugvöllinn en hitt þennan kunningja fyrir tilviljun á rútustöðinni og beðið hann um að aka sér þangað. Kunninginn hafi einmitt verið á leið út á flugvöll. Hann gat ekki sagt nein deili á þessum manni en taldi að hann væri íslenskur. Hann hafi séð hann á tali við Gumma en ekki séð hann heima hjá honum. Þeir hafi aðeins verið tveir í bílnum. Eftir að út á flugvöllinn kom hafi hann sest niður, síðan farið á salerni og eftir það farið í síma til þess að hringja. Hann hafi svo skráð sig inn og skilað farangrinum. Hann kvaðst hafa verið einn á flugvellinum, ekki hitt Gumma og ekki muna hvort hann talaði við nokkurn mann þar.
Við meðferð sakamálsins fyrir dómi hefur stefnandi haldið fast við það að hann hafi komið hingað til lands í þeim tilgangi að fá sér vinnu á fiskiskipi. Þetta sumar hafi hann hitt þó nokkurn fjölda íslenskra sjómanna á skemmtistaðnum Q í Benidorm þar sem hann hafi verið yfirmaður öryggismála. Sjómennirnir hafi sagt að maður gæti aflað tekna sem næmu allt að 2 milljónum króna á 3-6 mánuðum ef aflabrögð væru góð. Ætlun hans hafi því verið sú að vinna hér í að minnsta kosti einn vetur og sjá hvernig hlutirnir gengju. Framkvæmdastjóri íslenska barsins á skemmtistaðnum, Guðmundur Ingi Þóroddsson, hafi sagt sér að hann ætti farseðil aðra leiðina til Íslands. Það hafi verið miklu ódýrara fyrir sig að kaupa þennan miða af honum þar sem hann hafði ekki haft áætlanir um það að koma strax aftur til Spánar. Því hafi hann keypt miðann af Guðmundi. Leigutími íbúðar hans í Benidorm hafi runnið út tveimur dögum áður en hann fór til Íslands. Hann hafi nefnt þetta við Guðmund af því að hann hefði sagt áður að hann gæti dvalist í íbúð sinni. Hann hafi pakkað farangri sínum í íþróttatösku að viðstaddri vinkonu sinni og farið í íbúð Guðmundar með töskuna sem hafi verið ólæst. Hann hafi ekki pakkað neinu síðar nema e.t.v. stuttbuxum sínum og ermalausum bol. Stefnandi kvaðst hvorki kannast við fíkniefnin, sem voru í tösku hans við komu til landsins, né pakkann sem var utan um þau. Hann kvaðst enga skýringu hafa á því hvernig pakkinn komst í töskuna en kvaðst geta ímyndað sér að annaðhvort Guðmundur eða einhver, sem var í íbúðinni, hafi sett pakkann með eiturlyfjunum í töskuna. Lögreglumaðurinn sem leitaði í farangrinum hafi farið rakleiðis á þann stað þar sem eiturlyfin voru og sér hafi virst sem hann hafi vitað hvar þau voru. Hann kvaðst heldur ekki kannast við grænan íþróttabol sem lögreglan hafi tekið upp úr töskunni. Þegar hann hafi séð lögregluna taka bolinn upp úr töskunni hafi hann gert sér grein fyrir að einhver hefði farið í töskuna sína því bolurinn væri allt of lítill á sig. Hann kannaðist heldur ekki við síðar, bláar íþróttabuxur, sem voru í töskunni; þær væru allt of stórar. Framburður hans um meðferð hans á töskunni frá því er hann kom með hana í íbúð Guðmundar og þangað til hann sá hana við komuna til landsins var á sama veg og við rannsókn málsins.
Stefnandi kvaðst hafa séð uppdrátt þann, sem virðist vera af komusal í flugstöð Leifs Eiríkssonar, í íbúð Guðmundar, en ekki hafa hugmynd um hvað teikningarnar snerust. Hann kvaðst ekki hafa haft hugmynd um að buxurnar, sem teikningarnar fundust í, hafi verið í töskunni við komu hans til landsins og því síður hafi hann vitað að þær voru í farangri hans. Guðmundur hafi rætt í íbúð hans við tvo eða þrjá Íslendinga um þessar teikningar. Þeir hafi talað saman á íslensku. Margir Íslendingar hafi komið á þessum tíma í íbúðina og einhverjir dvalist þar. Hann hafi verið mjög stutt í íbúðinni, hann hafi verið að ganga frá ýmsum málum, ganga frá leigunni á íbúðinni sinni o.þ.h. Stefnandi sagðist ekki hafa verið með reiðufé á sér við komuna til landsins. Hann hafi talið sig vera með greiðslukort vinkonu sinnar á sér, sem hann hafi haft heimild til að nota. Hann hafi ekki viljað nefna þetta í fyrstu þar sem þessi kona væri þekkt á Spáni og nýlega skilin. Hún hafi verið honum hjálpleg og hann hafi ekki viljað blanda henni í þetta mál. Stefnandi kvaðst hins vegar ekki eiga greiðslukort sjálfur. Kvaðst stefnandi hafa ætlað að koma sér sjálfur til Reykjavíkur frá flugstöðinni og ætlað að nota greiðslukortið til að greiða fargjaldið. Hann hafi ekki átt von á því að verða sóttur. Hann hafi svo haft í hyggju að gista á einhverju ódýru gistiheimili í nokkra daga. Sjómennirnir hafi tjáð honum að það væri nóg að fara niður á höfn og gefa sig fram til vinnu, sem ætti að geta hafist innan fárra daga. Hann kvaðst enga reynslu hafa af sjómennsku, en hann hafi starfað á sjó og sér hafi verið sagt að væru menn sterkir og reiðubúnir að starfa væri ekkert vandamál að fara á sjóinn. Hann kvaðst engar skýringar hafa á þeim framburði vitnisins Guðmundar Inga að hann hafi séð stefnanda pakka niður fíkniefnum áður en hann fór hingað til lands. Hann kvaðst ekki hafa verið vinur Guðmundar, en hann hafi boðið sér að fyrra bragði að dveljast hjá sér. Eftir á að hyggja hafi sér fundist eins og hann hafi þrýst á sig að gista hjá honum.
Framburður stefnanda um för sína út á flugvöllinn í Alicante og bið sína þar var í meginatriðum á sama veg fyrir dómi og við rannsókn málsins. Hann kvaðst hafa fengið far með Íslendingi, sem búi langt fyrir utan Benidorm. Hann hafi oft hitt þennan mann áður á Íslendingabarnum á skemmtistaðnum. Maðurinn hafi verið á gömlum bíl og verið á leiðinni heim. Hann hafi boðið sér far þegar stefnandi sagði honum að hann væri að fara út á flugvöll. Þennan mann hafi hann hins vegar ekki séð í íbúð Guðmundar. Mikil biðröð Íslendinga hafi verið á flugvellinum og hann stillt sér upp í þá biðröð. Hann hafi haldið á töskunni og skilið hana eftir við biðröðina í eitt skipti, þegar hann fór að hringja í móður sína og son, og farið svo aftur í röðina. Hann kvaðst engan hafa hitt á flugvellinum sem hann þekkti, hvorki Guðmund né aðra.
Stefnandi kvaðst hafa greitt Guðmundi farseðilinn í reiðufé tveimur dögum fyrir brottförina. Þeir hafi þá verið í bíl fyrir utan ferðaskrifstofuna. Þeir hafi orðið samferða í bæinn, stefnandi hafi farið að versla en Guðmundur farið með miðann inn á ferðaskrifstofuna. Guðmundur hafi því séð um að ganga frá skriffinnskunni í kringum þetta, breyta nafninu á miðanum frá hans nafni yfir í sitt. Um það hafi verið samkomulag að stefnandi myndi svo fá farseðilinn afhentan á flugvellinum hjá starfsmanni ferðaskrifstofunnar. Hann hafi fengið farmiðann afhentan við afgreiðsluborðið þar sem hann skráði sig fyrir brottförina.
Stefnandi sagði að hann hafi ekki verið illa staddur fjárhagslega er hann kom hingað til lands. Hann hafi haft um 220.000 - 250.000 íslenskar krónur á mánuði yfir aðalferðamannatímann, tvo til tvo og hálfan mánuð. Mestar tekjur sínar færu hins vegar til framfærslu barnsmóður sinnar og sonar síns. Stefnandi kvað það rangt að hann hafi sagt við tollverði við komuna til landsins að hann væri að koma sem ferðamaður. Hann kvaðst ekki muna hvað hann sagði þeim. Sjómennirnir, sem hann hitti á Spáni, hafi sagt sér að þar sem hann hefði ekki atvinnuleyfi yrði hann rekinn til baka ef hann segði að hann væri í atvinnuleit. Hann kvaðst ekki hafa vitað að sem breskur þegn gæti hann leitað vinnu hvar sem er á evrópska efnahagssvæðinu. Hann kvaðst alltaf stunda vinnu á öðrum stöðum á veturna en á sumrin.
Stefnandi kvaðst aldrei hafa notað fíkniefni og neyta áfengis í hófi. Hann neitaði því að hann hefði verið við áfengisdrykkju með Guðmundi í íbúð hans. Hann kvaðst hvorki vita hvort Guðmundur hafi verið viðriðinn fíkniefni né hvort fíkniefnaneysla hafi verið í íbúðinni, en sumt hafi bent til þess síðarnefnda. Stúlka sem vann á barnum hjá Guðmundi hafi hins vegar varað hann við Guðmundi, sagt honum að vera varfærinn ef hann ætlaði að dveljast í íbúð hans.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir á því að fyrir liggi að hann hafi setið saklaus í gæsluvarðhaldi í 263 daga (ath. dagafjöldi rangt tilgreindur í stefnu, var leiðrétt við munnlegan málflutning), eða frá 1. september 1998 til 21. maí 1999 og í farbanni frá þeim degi til 16. júlí 1999, eða samtals 56 daga. Frelsissvipting sé alvarlegur hlutur og hafi ekki einungis þær afleiðingar að viðkomandi sé sviptur möguleika á öflun tekna, heldur sé verulegt miskatjón fólgið í slíkri aðgerð. Hafi slík vistun andlegar þjáningar í för með sér og valdi skaða á mannorði viðkomandi. Óvenju mikið hafi verið fjallað um mál stefnanda í fjölmiðlum og því óhugsandi annað en mannorð hans hafi beðið mikinn hnekki vegna málsins sem jafnvel sýknudómur Hæstaréttar fái ekki bætt úr.
Stefnandi sundurliðar bótakröfu sína þannig að bætur vegna tekjutaps frá 1. september 1998 til 21. maí 1999 nema 942.523 kr. og kveðst stefnandi miða við meðal mánaðarlaun verkamanna á 1. ársfjórðungi 1999 samkvæmt úttekt kjararannsóknar- nefndar, 108.336 kr. á mánuði. Stefnandi miðar miskabótakröfu vegna gæslu- varðhaldsvistar við 100.000 kr. í miskabætur á dag eða samtals 23.300.000 kr. og miskabótakrafa vegna farbanns er miðuð við 50.000 kr. á dag eða samtals 2.800.000 kr.
Stefnandi vísar til XXI. kafla laga nr. 19/1991, einkum 175. gr. Þá vísar stefnandi til 67. gr. og 70. gr. stjórnarskrárinnar og 5. og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
Stefnandi byggir á því að þrátt fyrir að breyting á 175. gr. laga nr. 19/1991 hafi ekki öðlast gildi fyrr en 1. maí s.l., sé ljóst að mál stefnanda hljóti að dæmast eftir núgildandi lagaákvæði, enda hafi með breytingunni verið að laga lögin að þeim alþjóðasamningum sem Íslendingar eru aðilar að, þ.e. mannréttindasáttmála Evrópu, auk þess sem skýlaust ákvæði um bótaskyldu í slíkum tilvikum sé að finna í 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, eins og henni var breytt með lögum nr. 97/1995.
Stefnandi vekur sérstaka athygli á eftirfarandi orðum úr greinargerð með breytingu á 175. gr. laga nr. 19/1991, en þar segi m.a.: "Í niðurlagi b-liðar málsgreinarinnar er það gert að skilyrði fyrir því að maður, sem t.d. hefur verið sýknaður af refsikröfu vegna þess að sök hans hefur ekki verið sönnuð í opinberu máli, fái bætur úr ríkissjóði að fremur megi telja hann líklegan til að vera saklausan af háttseminni en sekan. Í ljósi reglunnar um að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð, sbr. 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, svo og reglunnar um að hver maður, sem sviptur hefur verið frelsi að ósekju, skuli eiga rétt til skaðabóta, sbr. 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar og 5. mgr. 5. gr. mannréttinda-sáttmálans, er lagt til að skilyrði þetta verði afnumið."
Stefnandi telur augljóst að væri dæmt eftir lögunum eins og þau voru fyrir breytinguna 1. maí s.l., væri verið að brjóta framangreind stjórnarskrárákvæði og mannréttindasáttmála Evrópu, en hann hafi verið lögleiddur löngu áður en mál stefnanda kom upp.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Af hálfu stefnda er á því byggt að þvingunaraðgerðir þær sem stefnandi sætti meðan á rannsókn og dómsmeðferð máls hans stóð hafi verið fyllilega lögmætar og í samræmi við réttarframkvæmd hér á landi. Úrskurðir um gæsluvarðhald og farbann hafi verið kveðnir upp af þar til bærum dómstólum, á grundvelli fyrirliggjandi gagna málsins og staðfestir af Hæstarétti Íslands. Eigi því engan veginn við að stefnandi hafi verið sviptur frelsi að ósekju, sbr. ákvæði 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar og 5. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Meðferð máls stefnanda hafi fullnægt að öllu leyti skilyrðum þessara ákvæða um lögmæta frelsissviptingu. Þá hafi verið kappkostað að flýta máli stefnanda eftir föngum.
Stefndi vekur athygli á því að ákvæðum 175. gr. laga nr. 19/1991 hafi verið breytt með lögum nr. 36/1999 og tóku breytingarnar gildi 1. maí s.l. Atburðir þeir, sem stefnandi byggi bótakröfu sína á, hafi aðallega gerst á gildistíma gömlu ákvæðanna og beri því að leggja þau ákvæði til grundvallar við úrlausn málsins. Eldra lagaákvæðið hafi verið þannig að bætur mátti greiða sakborningi hafi hann ekki með vísvitandi eða stórvægilegu, gáleysislegu, ólögmætu framferði valdið þeim aðgerðum sem hann reisir kröfur sínar á. Þá sé lagt undir mat dómara hvort líklegra sé að sakborningur hafi verið saklaus af háttsemi eða ekki. Telur stefndi langlíklegast að stefnandi hafi ekki verið saklaus af þeirri háttsemi sem hann var ákærður fyrir. Þá heldur stefndi því fram að stefnandi uppfylli ekki heldur skilyrði a-liðar 1. tl. 175. gr. laga nr. 19/1991 eins og þau ákvæði voru fyrir lagabreytinguna 1. maí s.l. Stefnandi hafi reynst margsaga um ýmis atriði við rannsókn málsins og því torveldað hana í veigamiklum atriðum. Stefndi telur ótvírætt að niðurstaða Hæstaréttar í máli stefnanda sé með þeim hætti að krafa stefnanda um bætur yrði ekki tekin til greina ef eldri ákvæði 175. gr. lægju til grundvallar í bótamáli stefnanda.
Stefndi byggir á því að eftir að 175. gr. laganna var breytt með 42. gr. laga nr. 36/1999 sé það áfram háð mati dómara hvort dæma eigi bætur. Þá megi fella niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Enginn hlutlægur mælikvarði sé gefinn til ákvörðunar bóta og sé líklegast að sanngirnismat dómara muni áfram ráða því hvort bætur verði dæmdar. Stefndi byggir á því að stefnandi hafi stuðlað að því að þvingunaraðgerðum var beitt um lengri tíma með misvísandi skýrslum sínum, sem um sumt voru fjarstæðukenndar en stönguðust að öðru leyti á við framburð vitna og önnur sönnunargögn. Stefndi vísar um þetta til ítarlegrar umfjöllunar í sératkvæði Hæstaréttar.
Stefndi byggir á því að stefnandi hafi orðið ber að ósannindum við meðferð málsins og heimili það eitt sér samkvæmt 175. gr. að fella niður bætur eða lækka þær. Dómara sé heimilt að dæma bætur en honum beri ekki skylda til þess og er bótaregla 175. gr. því ekki hlutlæg. Meta verði skilyrði til bóta í ljósi þeirrar heildarmyndar sem blasi við dómara. Hann sé hvorki bundinn af sýknudómi né sönnunarreglum opinberra refsimála og þarf að meta bótaskilyrði sjálfstætt á grundvelli almennra sönnunarreglna í skaðabótamálum. Í ljósi þess að mikið magn fíkniefna fannst á stefnanda og vegna ótrúverðugrar frásagnar hans um aðstæður sínar almennt sé sýkna eðlilegasta niðurstaðan. Þvingunaraðgerðir gagnvart stefnanda hafi verið eðlilegar í ljósi þessa og þar sem stefnandi stuðlaði að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfur sínar á megi samkvæmt 175. gr. sýkna eða lækka bætur þegar þannig standi á.
Stefndi mótmælir því að mannréttindi hafi verið brotin á stefnanda. Hafi þess þvert á móti verið gætt að framvinda rannsóknarinnar færi nákvæmlega að lögum. Þá minnir stefndi á að ákvæði 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar verði ekki skýrt svo að með því sé sakborningi veittur ríkari réttur til bóta úr ríkissjóði en mælt er fyrir um í XXI. kafla laga nr. 19/1991 eða leiðir af almennum skaðabótareglum.
Forsendur og niðurstaða.
Í máli þessu krefst stefnandi bóta vegna gæsluvarðhalds og síðar farbanns að ósekju. Er upplýst að stefnandi var handtekinn við komu til landsins frá Spáni 1. september 1998 eftir að í ljós kom að í fórum hans var verulegt magn fíkniefna, eða 2031 tafla af MDMA. Stefnandi var úrskurðaður í gæsluvarðhald daginn eftir og sat hann í gæsluvarðhaldi óslitið til 21. maí 1999 er hann var úrskurðaður í farbann eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur hafði sýknað hann af refsikröfu ákæruvaldsins. Frelsisskerðingu stefnanda lauk síðan 16. júlí 1999 er Hæstiréttur Íslands staðfesti sýknudóminn.
Stefnandi reisir kröfur sínar á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, einkum 175. gr. laganna, 67. og 70. gr. stjórnarskrárinnar og 5. og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þrátt fyrir tilvísun stefnanda til XXI. kafla laga nr. 19/1991 í heild sinni verður málatilbúnaður hans ekki skilinn svo að krafist sé bóta á grundvelli 176. gr. laganna. Kemur því ekki til skoðunar hvort lögmæt skilyrði hafi brostið til þeirra aðgerða sem gripið var til gagnvart stefnanda eða ekki hafi verið, eins og á stóð, nægilegt tilefni til slíkra aðgerða eða þær verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.
Ekki verður talið, að ákvæði 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 5. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, verði skýrt svo, að með því sé sakborningi veittur ríkari réttur til bóta úr ríkissjóði en mælt er fyrir um í XXI. kafla laga nr. 19/1991 eða leiðir af almennum skaðabótareglum.
Þegar stefnandi var handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald var 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991 svohljóðandi: "Kröfu um bætur samkvæmt þessum kafla má, nema öðruvísi sé sérstaklega mælt, því aðeins taka til greina að: a. sakborningur hafi ekki með vísvitandi eða stórvægilegu, gáleysislegu, ólögmætu framferði valdið þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á, svo sem með stroki, ósannindum, tilraunum til að torvelda rannsókn o.s. frv., og b. rannsókn hafi verið hætt eða ákæra ekki gefin út vegna þess að sú háttsemi, sem sakborningur var borinn, hafi talist ósaknæm eða sönnun hafi ekki fengist um hana eða sakborningur hafi verið dæmdur sýkn með óáfrýjuðum eða óáfrýjanlegum dómi af sömu ástæðu, enda megi fremur telja hann líklegan til að vera saklausan af háttseminni en sekan." Þessari lagagrein var breytt með 42. gr. laga nr. 36/1999 og öðlaðist breytingin gildi 1. maí 1999. Er lagagreinin nú svohljóðandi: "Kröfu um bætur samkvæmt þessum kafla má taka til greina ef rannsókn hefur verið hætt eða ákæra ekki gefin út vegna þess að sú háttsemi sem sakborningur var borinn hafi talist ósaknæm eða sönnun hafi ekki fengist um hana, eða sakborningur hefur verið dæmdur sýkn með óáfrýjuðum eða óáfrýjanlegum dómi af sömu ástæðu. Þó má fella niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á." Í athugasemdum um 42. gr. sem fylgdi frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála segir að rétt þyki að leggja til að þegar í stað verði afnumið það skilyrði bótagreiðslu úr ríkissjóði til manns sem hefur verið sýknaður af refsikröfu að fremur megi telja hann líklegan til að vera saklausan af háttseminni en sekan. Var vísað til reglunnar um að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli talinn saklaus þar til sekt hans er sönnuð, sbr. 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttinda- sáttmála Evrópu, svo og reglunnar um að hver maður, sem sviptur hefur verið frelsi að ósekju, skuli eiga rétt til skaðabóta, sbr. 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar og 5. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmálans.
Ágreiningur aðila í máli þessu snýst um það hvort leggja beri til grundvallar hina eldri eða yngri mynd 1. mgr. 175. gr. laga um meðferð opinberra mála þegar leyst er úr því álitaefni hvort stefnandi eigi bótarétt. Stefndi telur að byggja beri á hinu eldra ákvæði við úrlausn málsins en stefnandi telur að slík niðurstaða sé ótæk með vísan til áðurgreindra ákvæða mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrárinnar. Í máli þessu er aðstaðan sú að stefnandi sat í gæsluvarðhaldi þegar 175. gr. var breytt 1. maí 1999, en hann var látinn laus 21. maí sama ár og þá úrskurðaður í farbann sem hann sætti þar til Hæstiréttur staðfesti sýknudóm héraðsdóms 16. júlí sama ár.
Mannréttindasáttmála Evrópu var veitt lagagildi hér á landi 30. maí 1994 með lögum nr. 62/1994. Eftir lögfestingu hans hefur Hæstiréttur Íslands kveðið upp nokkra dóma þar sem bótaréttur samkvæmt 175. gr. laga nr. 19/1991 var látinn velta á mati á því hvort líklegra væri að sakborningur, sem sýknaður var af refsikröfu, væri saklaus en sekur af þeirri háttsemi sem hann var ákærður fyrir, sbr. t.d. Hrd. 1996:390, 1996:613 og 1997:1630. Það er því álit dómsins að það fari hvorki í bága við stjórnarskrá né mannréttindasáttmála Evrópu að við mat á bótarétti stefnanda verði höfð hliðsjón af skilyrðum þágildandi a- og b-liðar 1. mgr. 175. gr. laganna. Hins vegar er ljóst að eftir gildistöku 42. gr. laga nr. 36/1999 um breytingu á 1. mgr. 175. gr. laga um meðferð opinberra mála er slíkt mat á sekt eða sakleysi óheimilt þegar leyst er úr bótakröfu sakbornings. Eftir sem áður er dómara heimilt með vísan til síðari málsliðar núgildandi 1. mgr. 175. gr. laganna að meta hvenær sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á.
Þegar stefnandi var handtekinn á Keflavíkurflugvelli hafði fundist í fórum hans verulegt magn fíkniefna. Féll því strax sterkur grunur á stefnanda um að hann ætti aðild að fíkniefnainnflutningi og varð því ekki hjá því komist að úrskurða hann í gæsluvarðhald í þágu rannsóknar málsins. Stefnandi neitaði hins vegar frá upphafi allri vitneskju um fíkniefnin og gaf þá skýringu að þeim hlyti að hafa verið komið fyrir í farangri hans. Framburður stefnanda varð þegar á reiki um ýmis atriði sem gátu skipt verulegu máli þegar reynt var að upplýsa málið. Stefnandi hefur t.d. neitað að skýra frá nafni stúlku sem hann segir að hafi verið viðstödd þegar hann bjó um farangur sinn og þá hefur hann skýrt rangt frá ýmsum atriðum sem varða aðdraganda Íslandsferðarinnar. Þá vekur það sérstakar grunsemdir að stefnandi kom til landsins klæðlítill og nánast félaus og við rannsókn og meðferð sakamálsins gaf hann ófullnægjandi og óstöðuga frásögn um greiðslukort sem ýmist hann kvaðst vera skráður fyrir eða vinkona hans, sem hann vildi þó ekki nafngreina. Auk þessa kvaðst stefnandi í fyrstu ætla að dveljast hér á landi sem ferðamaður, en síðar skýrði hann svo frá að hann ætlaði að stunda sjómennsku.
Þegar allt framanritað er virt þykir framkoma stefnanda við rannsókn og meðferð sakamálsins á hendur honum hafa verið með þeim hætti að óhjákvæmilegt hafi verið að beita hann þeirri frelsisskerðingu sem mál þetta snýst um. Þar sem ekki hefur verið annað í ljós leitt en framangreindir gæsluvarðhaldsúrskurðir og farbannsúrskurður hafi verið fyllilega lögmætir og í samræmi við ákvæði laga um meðferð opinberra mála, stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu, eru því ekki lagaskilyrði til að taka bótakröfu stefnanda til greina. Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Málskostnaður milli aðila fellur niður.
Samkvæmt 178. gr. laga nr. 19/1991 greiðist kostnaður stefnanda af málinu, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Helga Jóhannessonar, hrl., 300.000 krónur, úr ríkissjóði. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Kio Alexander Ayobambele Briggs, í máli þessu.
Málskostnaður milli aðila fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Helga Jóhannessonar, hrl., 300.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
Hjörtur O. Aðalsteinsson.