Kröftugt gos á 6-7 kílómetra langri sprungu

Tignarlegt var að sjá til eldstöðvanna úr Eyjum en þessi …
Tignarlegt var að sjá til eldstöðvanna úr Eyjum en þessi sjón blasti við Sigurgeir ljósmyndara undir klukkan 18:30 í kvöld. Mökkurinn þeytist til lofts á ógnarhraða og neðst á myndinni sjást hrauntaumar niður Hekluhlíðar. mbl.is/Sigurgeir

„Það virtist sem það væri opin sprunga eftir endilöngum Hekluhryggnum og okkur telst til að hún hafi verið um 6-7 kílómetra löng. Það gaus á allri sprungunni og víða stóðu býsna öflugir strókar upp af henni, að minnsta kosti tugi metra í loft upp ef ekki hærra," sagði Guðrún Larssen jarðfræðingur á Raunvísindastofnun Háskóla Íslands í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins í kvöld en hún flaug um kvöldmatarleytið yfir gosstöðvarnar í Heklu ásamt fleiri vísindamönnum. Talsvert öskufall hefur verið frá gosinu og á ellefta tímanum í kvöld var farið að bera á öskufalli frá Heklu á Akureyri og víðar á Norðurlandi.

„Það var skýjahula þegar við komum yfir gosstöðvarnar um klukkan 19 og við sáum til jarðar gegnum göt. Það virtist sem opin sprunga væri eftir endilöngum Hekluhryggnum. Okkur virtist sem mökkurinn sem hæst reis kæmi upp úr fjallinu miðju. Hann var í um 11 kílómetra hæð þegar við sáum hann fyrst, eða um sjöleytið. Þegar komið var yfir eldstöðvarnar sáum við að fyrir norðan hann kom upp svartari mökkur og virtist mikil gjóskuframleiðsla vera fyrir norðaustan toppgíginn. Við sáum sprengingar á sprungunni, bæði á sprungunni fyrir norðan toppgíginn og líka fyrir suðvestan toppinn. Þar voru býsna öflugir eldstrókar líka. Þeir voru allavega tugir metra á hæð en gætu hafa verið enn hærri. Hrauntauma lagði niður suðausturhlíðar fjallsins. Þeir voru ekki farnir að breiða úr sér á sléttara landi en voru komnir niður fjallshlíðina. Var ekki annað að sjá en að þarna væri töluvert hraunrennsli," sagði Guðrún. Aðspurð um samanburð við fyrri Heklugos sagði hún að þeim vísindamönnunum hefði borið saman um er þeir voru yfir gosstöðvunum, að gosið nú væri líkast gosinu 1991 hvað varðar stærð og annað. „Í gosinu 1991 náði gossprungan hins vegar frá toppgíg og austur yfir og beygði þar niður fjallshlíðina og mest af hrauninu kom upp við norðausturenda sprungunnar. Þá voru einnig styttri gossprungur sunnantil í fjallinu og gaus á fleiri sprungubútum en nú gýs á einni langri sprungu," sagði Guðrún. Guðrún sagði að munurinn á gossprungunni í Heklu í kvöld og sprungunni 1991 væri sá að núna væri opin gossprunga fyrir suðvestan toppgíginn einnig. Ekki hefði verið að sjá að hraun rynni til vesturs.

Kröftugt og hefðbundið Heklugos

„Gosið virtist býsna kröftugt og er hefðbundið Heklugos að því leyti að það byrjar með öflugu þeytigosi. Sá hluti gosanna hefur venjulega staðið nokkuð stutt, venjulega einhverja klukkutíma og síðan fer að draga úr því. Hraunrennsli virðist hins vegar hafa byrjað nánast strax núna og það heldur áfram með gosið varir. Það er ekki hægt að segja nokkuð til um hvað gosið gæti orðið langt. Ég minni bara á að gosið 1980 stóð í um þrjá daga en í rúmar sjö vikur 1991, byrjaði þá 17. janúar og stóð til 11. mars, svo það getur skeikað töluverðu," sagði Guðrún en jarðvísindamenn munu aftur fljúga yfir gosstöðvarnar í fyrramálið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert