Ein viðamesta björgunaraðgerð á Íslandi

Björgunarsveitir eru enn að flytja fólk úr föstum bílum á Þrengslum. Fólkið er flutt til Þorlákshafnar eða Reykjavíkur og að sögn lögreglu á Selfossi er veður afar slæmt á þessum slóðum. Talið er að búið sé að flytja allt að 1.500 manns af veginum. Að sögn manna í stjórnstöð Landsbjargar er enn fólk í þremur til fjórum tugum bíla á veginum. Skyggni hefur verið slæmt og miklir skaflar verið að myndast. Byrjað var að liðsinna fólkinu í gærkvöld en flestir hafa setið í bílum sínum frá því um áttaleytið í gær. Talið er að það taki 3 - 4 tíma að flytja þá sem enn eru á Þrengslavegi til Reykjavíkur.

Þegar ljóst var í hvað stefndi til voru snjóbílar sendir á Þrengslaveg til að athuga hvernig ástandið væri meðal fólksins. Kom í ljós að ein vanfær kona var í bíl á veginum og var henni komið til byggða undir eins. Aðrir þurftu að bíða lengur en ekki væsti um þá. Flestir bílanna höfðu nóg eldsneyti og því var ekki mikið um að fólk sæti klukkustundum saman í köldum bílum. Lögreglan í Reykjavík hefur verið að taka á móti fólkinu í alla nótt en fólkið var einnig flutt austur fram eftir nóttu. Björgunaraðgerðir hafa verið viðamiklar. Snjóbílar frá björgunarsveitum hafa náð í fólk úr Þrengslunum og hafa þrír langferðabílar keyrt til móts við snjóbílana og flutt fólkið til Reykjavíkur. Að sögn lögreglu hefur hver langferðabíll farið að minnsta kosti þrjár ferðir frá því í nótt. Þrátt fyrir að hafa þurft að þola þessa vosbúð er fólk ágætlega á sig komið að sögn lögreglu. Fólk sem var flutt austur í nótt gistir í grunnskólum í Hveragerði og Þorlákshöfn. Að sögn lögreglu á Selfossi er einnig fullt á öllum hótelum og gistiheimilum. Lögreglan segir að það sé mesta furða hversu fólk ber sig vel eftir vistina á Þrengslavegi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka