Um 130 manns þurftu að rýma hús sín í fjórum byggðarlögum

Tekin verður ákvörðun um það síðar í dag hvort það fólk sem varð að rýma hús sína á Patreksfirði, Ísafirði, Siglufirði og í Bolungarvík fær að snúa til síns heima í dag. Alls voru rýmd tæplega 40 íbúðarhús á þessum stöðum og lætur nærri að 130 manns hafi þurft að flytja út úr íbúðum sínum.

Fjórtán hús voru rýmd á Patreksfirði í morgun á svonefndum A-reit við Urðargötu, Mýrar og Hóla. Að sögn sýslumannsins verður fundur í almannavarnarnefnd um klukkan sex í dag og þá verður ákveðið hvort fólk fær að fara heim í kvöld. Í gærkvöldi voru rýmd nokkur hús í Bolungarvík og snerti sú rýming 24 einstaklinga. Á Siglufirði voru rýmd hús á svæði G, K og O og munu 78 íbúar þeirra húsa hafa þurft að flytja út. Á Ísafirði var eitt íbúðarhús rýmt og einn vinnustaður. Á öllum þessum stöðum er beðið eftir veðurspá, sem á að berast almannavarnarnefndum staðanna á næstunni, og verður í framhaldi af því ákveðið hvort rýmingu verður aflétt.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert