Leggja af stað á pólinn í 45 stiga frosti

Fjörutíu og fimm stiga frost, hægur vindur og bjartviðri beið norðurpólsfaranna Haralds Arnar Ólafssonar og Ingþórs Bjarnasonar á Ward Hunt-eyju á 83. breiddargráðu er þeir stigu út úr Twin Otter-skíðaflugvél, sem flutti þá frá eskimóaþorpinu Resolute til Ward Hunt-eyju. Þaðan var reiknað með að gangan á norðurpólinn hæfist á miðnætti.

Vélin lenti um klukkan 21 að íslenskum tíma í gærkvöldi, eða um klukkan 15 á Ward Hunt og héldu þeir félagar út á ísinn með sleða sína í eftirdragi að lokinni losun vélarinnar og annarri umsýslu.

Að sögn Ólafs Arnar Haraldssonar föður Haralds, sem var í sambandi við son sinn í gær þegar millilent var í Eureka á Ellesmerey, var hljóðið gott í Haraldi. Sagði hann að þeir Ingþór hefðu aðlagast kuldanum vel og allur búnaður væri heill.

Flugið frá Resolute tók sex klukkustundir og samferða Íslendingunum voru þrír Svíar, sem hyggjast ganga á norðurpólinn á 50 dögum. Svíarnir eru með nærri því helmingi léttari sleða en Haraldur og Ingþór og bera hluta byrðanna á bakinu. Samanlögð þyngd farangurs þeirra er um 95 kg á móti 120 kg hjá Haraldi og Ingþóri. Íslendingarnir hyggjast ná norðurpólnum á 60 dögum.

Haraldur og Ingþór hafa meðferðis Iridium gervihnattasíma sem þeir nota til að gefa skýrslu um stöðu mála á ferðalaginu. Fjárhagserfiðleikar framleiðandans gætu hugsanlega sett strik í reikninginn, en Haraldur og Ingþór gerðu í undirbúningnum ráð fyrir fleiri fjarskiptamöguleikum, m.a. Argos senditæki, sem gerir þeim kleift að koma frá sér upplýsingum til bakvarðasveitar sinnar á Íslandi. Að auki hafa þeir sinn neyðarsendinn hvor.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert