Fram kom í máli félagsmálaráðherra að helstu rökin fyrir því að þjónusta við fatlaða skyldi verða viðfangsefni sveitarfélaga væru þau að sveitarstjórnarstigið stæði þegnunum nær en ríkisvaldið og jafnframt að þannig fengist aukið jafnrétti og blöndun fatlaðra og ófatlaðra. Páll rakti helstu nýmæli frumvarpsins en þar ber hæst að skerpt er á skyldum sveitarfélaga til að veita íbúum sínum félagsþjónustu, og lagði Páll sérstaka áherslu á það í því sambandi að frumvarpið gerði ráð fyrir að langveik börn skyldu framvegis njóta sams konar þjónustu og ef þau væru fötluð.
Í frumvarpinu er einnig kveðið á um samvinnu sveitarfélaga verði markmiðum laganna ekki náð á annan hátt og kom fram í máli Páls að hér væri einkum litið til þess möguleika að sum sveitarfélög væru of fámenn til að taka á einstökum málum ein og sér. Einnig er í frumvarpinu skapaður grundvöllur fyrir því að þjónusta og einstök rekstrarverkefni hins opinbera verði boðin út í ríkari mæli og framkvæmdasjóður fatlaðra verður lagður niður skv. frumvarpinu enda sagði Páll að einsýnt væri að hlutverki sjóðsins væri lokið með yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga og þar með samruna málefna fatlaðra og félagsþjónustu sveitarfélaga; verkefni hans yrðu framvegis hluti af verkefnum félagsþjónustu sveitarfélaga.
Páll lagði sérstaka áherslu á það í gær að frumvarpið fengi sem vandaðasta málsmeðferð. Sagðist hann gera ráð fyrir að félagsmálanefnd þingsins tæki það til umfjöllunar eftir fyrstu umræðu en að hún afgreiddi það ekki á þessu þingi heldur ynni í því með það að markmiði að það yrði afgreitt á þingi næsta haust.
Sagði Arnbjörg síðan í ræðu sinni að með flutningi málaflokksins til sveitarfélaga yrðu verkefni opinberra aðila gerð skilvirkari, stjórnsýslan markvissari og hagræðing fengist í rekstri. Taldi Arnbjörg að samþætting þjónustu við fatlaða við aðra þjónustu hins opinbera væri af hinu góða og sagðist hún á þeirri skoðun að sveitarfélögin gætu veitt betri og ódýrari þjónustu en ríkið í þessu málaflokki.
Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingar, var á hinn bóginn ein þeirra sem taldi að ástæða væri til að hafa áhyggjur af því að smærri sveitarfélög væru e.t.v. ekki í stakk búin til að taka að sér þau verkefni er flutningum á félagsþjónustu við fatlaða, og hún gerði einnig athugasemd við að leggja ætti niður framkvæmdasjóð fatlaðra.
Páll Pétursson félagsmálaráðherra tók fram síðar við umræðuna að það væri ekki ætlunin að flytja málaflokkinn til sveitarfélaga nema fjármögnun hans væri trygg og hann benti einnig á að mismunandi stærð sveitarfélaga hefði ekki reynst þröskuldur fyrir því að færa mætti þessi mál yfir til þeirra. Sagði félagsmálaráðherra að engin ástæða væri fyrir menn að vera tortryggnir í garð þjónustusamninga í málefnum fatlaðra, það væri ekki meiningin að fara að efna til stórfelldrar einkavæðingar en reynslan sýndi að það gæfi oft á tíðum góða raun að einkaaðilar tækju að sér einstök verkefni og þjónustu í tengslum við málefni fatlaðra.