16 ára fangelsi fyrir morðið í Espigerði

Elís Helgi Ævarsson hefur verið dæmdur í 16 ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir að bana áttræðri konu, Sigurbjörgu Einarsdóttur, í íbúð hennar við Espigerði í byrjun desember sl. Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóminn rétt í þessu en auk fangelsisvistar var Elís Helga gert að greiða allan sakarkostnað, 450 þúsund krónur. Til frádráttar refsingunni kemur 149 daga gæsluvarðhald.

Við rannsókn og meðferð málsins játaði Elís Helgi allar sakargiftir skýlaust en í úrskurði héraðsdóms kemur fram, að hann hafi veirð undir miklum áhrifum fíkniefna, áfengis og róandi lyfja er hann framkvæmdi verknaðinn með hrottalegum hætti. Segir í niðurstöðum geðheilbrigðisrannsóknar að Elís Helgi sé mjög hættulegur undir áhrifum eiturlyfja. Kvaðst hann hafa verið í stöðugri neyslu áfengis og fíkniefna í átta daga áður en hann vann ódæðið og notað kókaín, amfetamín og e-töflur umræddan dag. Einnig hafi hann verið búinn að neyta mogadons og diazepams og ekkert sofið undanfarna tvo til þrjá sólarhringa. Þar kemur fram að Elís Helgi hafi sýnt alvarlega hegðunartruflanir frá barnsaldi og ástæða sé til að ætla að fíkniefnaneysla frá 15 ára aldri hafi aukið á þá andfélagslegu persónuleikaröskun sem virðist þegar hafa verið greinanleg við 11 ára aldur. Telja verði að fíkniefnaneysla hans samverkandi með persónuleikaröskun þeirri sem hann þjáðist af sé helsta skýringin á glæpnum. Ódæðisdaginn kveðst Elís Helgi hafa verið í íbúð móður sinnar, sem var í vinnunni, í húsinu við Espigerði og íhugað að taka eigið líf en ekki haft kjark til þess. Þá hafi skyndilega kviknað sú hugsun að fremja morð. Hann hafi viljað „gera eitthvað nógu hræðilegt, gera sér eitthvað nógu illt og meiða sig án þess að fremja sjálfsmorð,” eins og segir í dómi héraðsdóms. Elís Helgi kveðst hafa farið út úr íbúðinni og knúð að dyrum íbúðarinnar á móti þar sem styst var í hana. Þar hefði verið fjölmennt og eftir að hafa þóst ætla að hringja hefði hann snúið aftur til íbúðar móður sinnar en staldrað stutt við; farið niður á hæðina fyrir neðan og valið íbúð Sigurbjargar af handahófi. Kvaðst hann hafa læst sig úti og beðið um að fá að hringja. Hún hafi orðið við bón hans um að fá að hringja og sótt þráðlausan síma. Notaði hann þá tækifærið, steig innfyrir dyrnar og lokaði á eftir sér. Er Sigurbjörg rétti honum símann kveðst hann hafa stungið til hennar nokkrum sinnum með þeim afleiðingum að hún féll í gólfið. Að því búnu dvaldist hann um stund í íbúðinni, rótaði í hirslum og skúffum og tók nokkur þúsund krónur. Elís Helgi var handtekinn á heimili móður sinnar næsta dag. Vísaði hann á morðvopnið milli loftplatna á salerni á lögreglustöðinni við Hverfisgötu en þar faldi hann hnífinn er hann var færður þangað til yfirheyrslu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert