„Halló. Þetta er Haraldur Örn Ólafsson, ég er á toppi tilverunnar, stend ofan á norðurpólnum" sagði Haraldur Örn Ólafsson norðurpólsfari er hann hringdi af norðurpól klukkan 21:28 í kvöld. Fjöldi fólks var viðstaddur í versluninni Útilífi og kvað við kröftugt lófatak er þessi orð höfðu verið töluð. Fyrstur ræddi Davíð Oddsson forsætisráðherra við Harald og sagði fagnaðarlætin í versluninni endurspegla þá aðdáun og stolt sem byggi í hugum landsmanna allra vegna þess afreks sem hann hefði nú unnið.
„Til hamingju Haraldur," sagði Davíð. „Þetta er stórkostleg stund, ég heyri fagnaðarlætin. Þau snerta mig djúpt," skaut Haraldur að. „Þessi fagnaðarlæti sem hér eru endurspegla þá ánægju og það stoilt sem býr núna í hugum landsmanna allra. Og það kemur í minn hlut að óska þér til hamingju fyrir hönd samlanda þinna og ríkisstjórnarinnar," sagði Davíð. „Þetta snertir mig djúpt og ég þakka þér kærlega fyrir að veita mér þá virðingu að taka við þessari tilkynningu minni. Ég var bara að koma hérna inn á pólinn rétt í þessu. Þetta hefur verið langur tími. Ég er búinn að vera á skíðunum í um 32 klukkustundir án þess að hvílast mikið. Þetta er búið að vera mjög stíft og mikið af vökum að tefja mig þannig að ég var rétt í þessu að koma á pólinn. Það er stórkostleg stund að upplifa þetta eftir tveggja mánaða þrotlausa vinnu að koma hingað. Ég er alveg í skýjunum, alveg á toppi tilverunnar," sagði norðurpólsfarinn. Sagðist Haraldur hafa verið að hugsa til þess að ekki væru nema tvö ár frá því hann stóð á suðurpólnum og væri það sérstök tilfinning að hafa hann núna beint undir fótum sér. „Í okkar huga ertu afreksmaður, sannur afreksmaður sem við erum stolt af. Það sem þú hefur nú áunnið með fótunum en þó aðallega ótrúlega einbeittum vilja - og þessi síðasti spotti þinn Haraldur hefur verið magnaður þar sem þú hefur í rauninni hvorki unnt þér svefns né matar til þess að ná þessu marki - þá erum við afskaplega ánægð með þig og stolt af þér og þakklát," sagði Davíð Oddsson.