Samþykkt að afnema skattfríðindi forseta

Þingmenn kveðjast og þakka á göngum Alþingis hverjir öðrum fyrir …
Þingmenn kveðjast og þakka á göngum Alþingis hverjir öðrum fyrir samveruna eftir þingslit í kvöld. mbl.is/Kristinn

Alþingi Íslendinga, 125. löggjafarþing, samþykkti frumvarp um afnám skattfrelsis forseta Íslands áður en það lauk störfum á ellefta tímanum í kvöld. Var fundi frestað til 30. júní en þá mun þingið koma saman í tengslum við hátíðarfund á Þingvöllum 2. júlí í tilefni kristnihátíðar.

Frumvarpið um afnám skattfrelsis forseta Íslands var samþykkt með 35 greiddum atkvæðum en fimm þingmenn Samfylkingar, sem viðstaddir voru, sátu hjá. Einnig voru samþykkt ný heildarlög um mat á umhverfisáhrifum, lög um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar, samkeppnislög, lög um lífsýnasöfn, sjúklingatryggingu og breytingar á lögum um lyfjalög og almannatryggingar. Ennfremur samþykkti þingið þingsályktunartillögur um vegáætlun fyrir árin 2000-2004 og jarðgangaáætlun fyrir 2000-2004. Fram kom m.a. í kveðjuorðum Halldórs Blöndal þingforseta að Alþingi hefði samþykkt 127 stjórnarfrumvörp sem lög á nýliðnu þingi og ellefu þingmannafrumvörp.

Nefnd endurskoði laun forsetans


Við umræðu um frumvarp um afnám skattfrelsis forseta Íslands kom í ljós að meiri hluti efnahags- og viðskiptanefnd gerði tillögu um nokkrar breytingar á frumvarpinu. Var samþykkt að bæta við bráðabirgðaákvæði þar sem kveðið er á um að skipa skuli nefnd sem hafi það verkefni að endurskoða lög um laun forseta Íslands og önnur lög sem hafa áhrif á störf forsetans. Skal nefndin m.a. fjalla um hvort ástæða sé til að breyta fyrirkomulagi á ákvörðun launa forseta þannig að annar aðili en Kjaradómur úrskurði um þau. Verði miðað við að unnt verði að koma á nýrri skipan í upphafi þess kjörtímabils sem hefst 2004 en markmið breytinganna er að undirstrika sérstöðu launaákvarðana fyrir forseta Íslands og að kjör hans skuli ekki verða viðmiðun fyrir aðra. Þá var ennfremur samþykkt sú breyting að hlunnindi forseta vegna embættisbústaðar og rekstrar hans, risnu og bifreiða eða önnur hlunnindi sem embættinu fylgja verði ekki talin til skattskyldra tekna sökum þess hversu vandmetin þessi hlunnindi eru og í eðli sínu embættiskvöð sem nýtist mjög takmarkað þeim sem gegni embætti forseta.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert