Það urðu miklir fagnaðarfundir á norðurpólnum klukkan eitt í nótt þegar flugvél kanadíska flugfélagsins First Air lenti þar í fimmtu tilraun til þess að ná í pólfarann Harald Örn Ólafsson. "Það er skálað hér í kampavíni og það ríkir gleði hérna. Ég er svo yfir mig glaður að vélin skuli vera komin og takmarkinu sé náð og ég sé á heimleið. Það er svo stórkostlegt. Ég ræð mér ekki fyrir gleði," sagði Haraldur Örn í samtali við Morgunblaðið í nótt eftir að vélin var lent.
Gera átti hálftíma viðdvöl á meðan sett yrði bensín á vélina og sagðist Haraldur reikna með að koma heim til Íslands á mánudagsmorgun.Flugvélin gat ekki lent fyrr en í fimmtu atrennu, þar sem óslétt var undir og konan sem stjórnaði vélinni þurfti því að athuga aðstæður mjög vel áður en hún gat lent með skíðin niðri. Um borð í vélinni voru eiginkona Haraldar, Una Björk Ómarsdóttir, Ingþór Bjarnason, Skúli Björnsson og Hallur Hallsson úr bakvarðasveit Haraldar, auk tveggja fréttamanna.
Vegalengdin frá Resolute Bay er 1.770 kílómetrar og tók flugið níu klukkustundir. Flugið gekk vel í alla staði og einnig gekk vel að finna Harald Örn sem var eins og agnarsmár punktur á ísnum. Þar urðu fagnaðarfundir og Haraldur sagði að þetta væri besta stund sem hann hefði upplifað. Haraldur sagðist hafa verið farinn að hafa áhyggjur þegar vélin hringsólaði yfir honum. Flugmaðurinn hefði verið mjög varkár og farið marga hringi yfir honum og því hefði hann verið farinn að verða dálítið smeykur. "En ég vissi alltaf að þeir myndu lenda einhvers staðar í nágrenni við mig. Það var bara spurning hvort ég þyrfti að ganga eitthvað til þeirra," sagði Haraldur.
Flugvélin fór frá Resolute Bay klukkan 14.30 í gær og lenti í Eureka um klukkan 17.00 að íslenskum tíma til að taka eldsneyti. Eftir stutt stopp var haldið út á heimskautaísinn með millilendingu við 86°N til að bæta við bensínbirgðir flugvélarinnar.