Björgunarsveitarmennirnir sóttir á Grænlandsjökul í dag

Twin Otter-skíðaflugvélin hélt frá Ísafirði klukkan 10:20 í morgun til þess að sækja fimm björgunarsveitarmenn frá Akureyri og tvo Breta á Grænlandsjökul. Flugvélin varð frá að hverfa í gærkvöldi vegna slæms skyggnis. Bjarki Hjaltason flugstjóri sagði við Fréttavef Morgunblaðsins að ferðin tæki alls um fjórar klukkustundir og reiknaði hann með að lenda aftur á Ísafjarðarflugvelli fyrir klukkan þrjú í dag.

Björgunarsveitarmennirnir fóru til Grænlands á miðvikudag til þess að reyna að ná líki Hollendings upp úr jökulsprungu. Daginn eftir þótti sýnt að það myndi ekki takast og því óskuðu þeir eftir að verða sóttir. Það hefur hins vegar ekki verið hægt vegna veðurs. Ingimar Eydal, formaður björgunarsveitarinnar Súlna, segist vænta þess að mennirnir séu orðnir matarlitlir enda hafi þeir einungis haft með sér mat til tveggja daga. Þeir geti þó gengið í matarbirgðir í búðum sem ferðaskrifstofa hefur sett upp á jöklinum en birgðirnar eru ætlaðar leiðangursmönnum sem ekki eru komnir á jökulinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert