Vindhviða feykti rútunni af veginum

Mikil mildi var að eldri borgarar ásamt nokkrum börnum, sem voru í rútu við Brynjudalsá innarlega í Hvalfirði síðdegis á sunnudag, slösuðust ekki alvarlega þegar rútan fauk út af veginum og lagðist á hliðina. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var tiltölulega stillt veður í Hvalfirði þegar slysið varð en svo virðist sem vindhviðum hafi slegið niður í fjörðinn.

Alls kom 41 einstaklingur til skoðunar á slysa- og bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi. 17 reyndust slasaðir en enginn þeirra alvarlega. Flestir farþega í langferðabifreiðinni voru í bílbeltum og er það talið hafa bjargað miklu.

Séra Bjarni Karlsson, sóknarprestur í Laugarneskirkju, var í rútunni ásamt átta ára syni sínum, tólf ára dóttur og bróðursyni. Bjarni segir að fólkið hafi eytt einum degi í Vatnaskógi og verið á heimleið þegar slysið varð. Hann segir að gífurlega aflmikil vindhviða hafi hreinlega feykt rútunni út af veginum og bílstjórinn hafi ekki ráðið neitt við neitt. Að sögn lögreglu mun bílstjórinn hafa misst bílinn út í vegkantinn sem gaf eftir. „Ökumaður rútunnar, reyndur bílstjóri til ellefu ára, gerði fyllilega skyldu sína. Hann ók varlega, var á 50-60 km hraða þegar þetta gerðist. Það var því lítill hraði á rútunni sem bjargaði miklu því þetta leit illa út. Rútan fór út af veginum á skásta stað. Það er ótrúlegt að þetta geti gerst svona. Það var svo feiknarlegt afl í hviðunni.

Hefði rútan farið út af tveimur metrum fyrr hefðu orðið slys á fólki því það var bjarg rétt fyrir aftan þann stað sem rútan staðnæmdist á. Mér sýndist líka að hefði hún farið út af enn aftar hefði hún oltið og þá hefði það líklega kostað mannslíf. Það er því mikið þakkarefni og varðveisla að svo vel fór," segir séra Bjarni.

Fjórar rútur höfðu verið í samfloti með þátttakendur í ferð í Vatnaskóg sem sóknarnefnd Laugarneskirkju ásamt Foreldrafélagi Laugarnesskóla stóðu að. Hópurinn sem séra Bjarni var með kom við í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd og rúta þeirra lagði því síðust af stað til Reykjavíkur.

„Það varð ekkert við ráðið. Bíllinn bara rann út af. Bílstjórinn rykkti honum upp á veginn einu sinni en þá kom önnur hviða. En þetta gerðist eins mildilega og hægt var. Síðan dreif að fólk á slysstaðinn og aðstoðaði við að koma mönnum út úr bílnum sem tók talsverðan tíma. Það gekk þó vel og ástæða er til þess að koma þakklæti til skila til þeirra vegfarenda sem þarna brugðust við og veittu hjálp," segir séra Bjarni.

Hann segir að bílbelti hafi verið í rútunni og mjög margir hafi notað þau. Það hafi bjargað mjög miklu. Séra Bjarni segir að fullkomin yfirvegun hafi verið í hópnum. Enginn hafi verið mikið meiddur en sumir fengu högg og skrámur. Þrjár konur voru enn á slysadeild í gær en til stóð að útskrifa þær síðar um daginn.

Börn sem sátu aftast í rútunni komust út af eigin rammleik út um afturgluggann. Sonur séra Bjarna var með honum í rútunni en hann fékk lítilsháttar höfuðhögg og rispu á hönd. Dóttir hans, tólf ára, var líka í rútunni og slapp hún ómeidd. Um þrjú korter liðu þar til fagleg hjálp barst á staðinn. Séra Bjarni segir að það hafi glaðnað til og sólin skinið. Fólkið hafi sest niður í lautu og breitt þar undir sig og yfir og beðið aðstoðar.

Farþegarnir voru allir fluttir til skoðunar og aðhlynningar á slysa- og bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi. Enginn reyndist alvarlega slasaður en einn sjúklingur lagðist inn á heila- og taugaskurðdeild til eftirlits vegna heilahristings og þrír sjúklingar lögðust inn á gæsludeild til eftirlits.

Þeir sem komu til spítalans fengu áfallahjálp frá áfallahjálparteymi sjúkrahússins. Unnið var samkvæmt hópslysaáætlun spítalans og voru rúmlega 30 starfsmenn spítalans kallaðir út vegna slyssins.

Í gærdag kom hópurinn saman í Laugarneskirkju til áfallahjálparfundar og til þess að fara yfir atburðinn með sérfræðingum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert