Björk stal senunni í Cannes

Björk Guðmundsdóttir.
Björk Guðmundsdóttir. mbl.is/Halldór Kolbeins

Björk stal senunni í Cannes er fyrirsögn fréttar á vef bresku sjónvarpsfréttastöðvarinnar SkyNews þar sem segir frá því að Björk hafi hreppt verðlaun fyrir besta leik í aðalhlutverki. Þá segir að besta leikkonan í Cannes sé ekkert alltof hrifin af leiklistinni. Björk sé þekkt fyrir sérvisku sína og glettni enda hafi hún sagt að leiklistin stæðist ekki samanburð við tónsmíðar. "Ég vissi að þetta yrði ekki aðeins mitt fyrsta hlutverk heldur líka mitt síðasta," sagði Björk á blaðamannafundinum í gærkvöldi. Breskum og bandarískum netmiðlum er og tíðrætt um ástarorð Lars von Trier, leikstjóra myndarinnari Dancer in the Dark, sem hann lét falla til Bjarkar þegar hann tók við gullpálmanum.

Myrkradansarinn var vinsæll meðal gesta kvikmyndahátíðarinnar í Cannes í Frakklandi en sambland harmsögu og söngleiks, sem myndin er, hafi fallið mjög misjafnlega í kramið hjá gagnrýnendum, að því er kemur fram á fréttavef bresku útvarpsstöðvarinnar BBC. Tekið er undir þetta á fréttavef bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CNN og sér að þrátt fyrir misjafna dóma hafi myndin verið sú sem mest spenna hafi verið í kringum á hátíðinni. Björk þarf að verma annað sæti á skemmtiiðnaðarfréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph á eftir frétt um að ástsæli rithöfundurinn Barbara Cartland skuli hafa látist í gær. Mykradansarinn og aðalleikkonan Björk kölluðu fram sterkustu tilfinningaviðbrögð frá áhorfendum kvikmyndahátíðarinnar, segir á fréttavef bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar ABC. Þá segir að styrkur myndarinnar sé ferskur og hrár leikur Bjarkar, sem hafi grætt flesta áhorfendur, og frumleg tónlistin, en Björk samdi tónlistina. Mikið gert úr orðaskiptum milli Bjarkar og von Triers Þá gera allir netmiðlarnir talsvert úr að því er virtist haturssambandi milli Bjarkar og von Trier fyrir kvikmyndahátíðina og fram undir lok hennar og ástarjátningum þeirra í gær, en eins og frægt er orðið þakkaði hann Björk þegar hann tók við gullpálmanum í gær og bætti við „þar sem ég veit að hún trúir því ekki þegar ég segi það - ef þið hittið hana, segið henni að ég elski hana mjög mikið." Björk sagði reyndar undir lok blaðamannafundarins í gærkvöldi þegar hún var innt eftir því hvernig henni hafi liðið þegar hún heyrði orð Triers: „Auðvitað elska ég hann."
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert