Deilur verktaka í Sultartangavirkjun magnast

Frá Sultartangavirkjun.
Frá Sultartangavirkjun. mbl.is/Júlíus

Uppgjörsdeila hefur staðið frá því haust milli rafiðnaðarmanna RAFALs ehf. og írska fyrirtækisins PCAS vegna vinnu Rafals-manna að verkhluta fyrir PCAS við Sultartangavirkjun. Írska fyrirtækið stóð ekki við umsamdar greiðslur og því lögðu Rafalsmenn niður vinnu í virkjuninni sl. haust. PCAS ákvað í framhaldinu að fá til sín írska rafiðnaðarmenn til verksins. Rafiðnaðarsambandið hefur beitt sér í málinu og fór starfsmaður þess m.a. upp að Sultartangavirkjun í dag og í síðustu viku til að afhenda forráðamönnum írska fyrirtækisins og starfsmönnum þess mótmælabréf. Þá hefur Landsvirkjun verið beðin um aðstoða við lausn málsins.

Íslensku rafiðnaðarmennirnir fóru fram á það við Rafiðnaðarsambandið að það sæi til þess að aðrir rafiðnaðarmenn gengu ekki í verk þeirra á meðan deilan væri óleyst. Rafiðnaðarsambandið mótmælir því að iðnaðarmenn gangi inn í verkefni hjá öðrum fyrirækjum, standi yfir deilur um uppgjör eða ógreidd laun. Verkið sem hér um ræðir var búið að semja um að íslensku rafiðnaðarmennirnir myndu taka að sér og vinna. Í dag fór Ísleifur Tómasson, starfsmaður Rafiðnaðarsambandsins, með dreifibréf upp í Sultartangavirkjun til að árétta kröfu íslenskra rafiðnaðarmanna. Hann sagði að allt hafi gengið átakalaust fyrir sig á svæðinu. Hann hafi látið írsku starfsmennina, sem voru tíu talsins, hafa bréfið en yfirmaður írska fyrirtækisins PCAS var ekki á staðnum. Starfsmaður RSÍ fór einnig svipaðra erinda sl. fimmtudag og þá brást forsvarsmaður írska fyrirtækisins illa við, að sögn Ísleifs. Segir hann að þegar starfsmaður RSÍ hafi ætlað að tala við írsku rafiðnaðarmennina og afhenda þeim gögn hafi forsvarsmaðurinn bannað þeim að tala við Íslendinga og taka við nokkru skriflegu efni frá þeim. Írsku rafiðnaðarmennirnir tjáðu þá starfsmanni RSÍ að ef þeir töluðu við hann þá yrði þeim sagt upp og þeir sendir heim með næstu flugvél. Rafiðnaðarsambandið hefur í bréfi í dag gert írska rafiðnaðarsambandinu grein fyrir stöðunni í þessu máli. Samkvæmt upplýsingum Fréttavefs Morgunblaðsins nema kröfur RAFALs á hendur írska fyrirtækinu um 19 milljónum króna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert