Stúlkan sem fannst látin í Kópavogi féll af svölum á 10. hæð

Ljóst þykir að stúlkan sem fannst látin fyrir utan fjölbýlishúsið við Engihjalla 9 í Kópavogi á laugardagsmorgun hefur fallið til bana af stigagangssvölum á 10. hæð hússins. Einni og hálfri klukkustund eftir að stúlkan fannst var 25 ára gamall maður, búsettur á Suðurlandi, handtekinn í húsinu í tengslum við andlát stúlkunnar. Þetta kemur m.a. fram í fréttatilkynningu frá lögreglunni í Kópavogi.

Rannsókn lögreglunnar í Kópavogi hefur leitt í ljós að hin látna og hinn handtekni munu hafa komið saman í leigubifreið og farið inn í húsið skömmu áður en stúlkan fannst látin. Hvorugt þeirra bjó í húsinu. Enn er óljóst um ástæður þess að stúlkan féll fram af svölunum og þátt mannsins í því. Málið er því enn á rannsóknarstigi. Hinn handtekni, sem áður hefur komið við sögu lögreglunnar, hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 9. júní.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert