Stefna að sigri á Bestu

Þrettán skútur munu taka þátt í siglingakeppni frá Paimpol í …
Þrettán skútur munu taka þátt í siglingakeppni frá Paimpol í Frakklandi til Reykjavíkur sem hefst á morgun. mbl.is

Undirbúningur siglingakeppninnar frá Paimpol til Reykjavíkur er nú á lokasprettinum en skúturnar verða ræstar af sendiherra Íslands í París, Sigríði Snævarr, nú á sunnudaginn 18. júní. Í upphafi voru 30 skútur skráðar í keppnina en rúmlega helmingur þeirra hefur helst úr lestinni og því eru það 13 skútur sem hefja leikinn nú á sunnudaginn. Íslensk áhöfn er á stærstu skútunni, sem er 61 fet og gefið hefur verið nafnið Besta.

Í áhöfn Bestu frá Paimpol til Reykjavíkur verða tólf Íslendingar á aldrinum 27 til 47 ára ásamt frönskum eiganda hennar, sem mun m.a. hafa það hlutverk að elda ofan í skipverja.

Í áhöfninni eru Gunnar Geir Halldórsson, Áskell Fannberg, Emil Pétursson, Arnþór Ragnarsson, Sigurður Óli Guðnason, Trausti Þór Ævarsson, Linda Björk Ólafsdóttir, Böðvar Friðriksson, Baldvin Björgvinsson, Jökull Pétursson og Ingvar Ágúst Þórisson auk Frakkans Jean Claude Féru.

Mikill hugur er í íslensku áhöfninni og er hún staðráðin í að sigra. Siglingamennirnir telja þó að um harða keppni verði að ræða þar sem vanar áhafnir eru einnig á hinum skútunum. Raunhæft telja þau að reikna með vikusiglingu og stefna því á að sigla inn Reykjavíkurhöfn 25. júní.

Paimpol. Morgunblaðið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert