Siglingakeppnin milli Paimpol og Reykjavíkur hófst klukkan 11.00 um morguninn á sunnudag er Sigríður Snævarr, sendiherra Íslands í Frakklandi, ræsti skúturnar 13, sem taka þátt í kappsiglingunni. Meira en 150 bátar fylgdu skútunum úr höfn og fjöldi fólks fylgdist með fyrsta sprettinn. Veðrið var með allra besta móti, heiður himinn, 27 stiga hita og 15 til 20 hnúta vindur af austri.
Um er að ræða 1.330 mílna leið og er reiknað með 7-13 daga siglingartíma. Er leiðin sú sama og frönsku góletturnar fóru á árunum 1852-1935 en þær voru síðan að veiðum á Íslandsmiðum í sex mánuði eða frá því í febrúar og fram á haust.
Skútan Besta með íslenskri áhöfn náði forystu á innan við hálftíma en hún var nr. 11 í röðinni út. Í íslensku áhöfninni eru okkar reyndustu siglingakappar í þremur liðum, sem skiptast á um að standa fjögurra tíma vaktir. Skipstjóri er Baldvin Björgvinsson. Tveir nýgræðingar eru þó í hópnum, þau Böðvar Friðriksson og Linda Björk Ólafsdóttir. Böðvar kemur inn sem styrktaraðili en Linda hefur frá áramótum verið með skipverja í ströngum þrekæfingum, enda útheimtir sigling yfir Atlantshafið mikið úthald.
Það var ekki vandræðalaust að fá hentuga skútu leigða eða keypta til keppninnar og vannst áhöfninni ekki tími til reynslusiglingar á þessari skútu sem þau leigja frá Paimpol. Þau eru þó hvergi bangin og eru staðráðin í að ná markinu á vikutíma og verður þá hægt að taka á móti þeim í Reykjavíkurhöfn 25. júní nk.
Á hádegi 19. júní var Besta enn með forystuna og voru þau þá á siglingu suður af Írlandi í góðum byr.
Aðrar áhafnir eru að mestu leyti skipaðar Frökkum fyrir utan eina skútu frá Belgíu. Tveir franskir sjómenn frá Paimpol, sem komnir eru á eftirlaun, eru í einni áhöfninni. Þeir voru á togara við Íslandsstrendur á sjöunda áratugnum og telja sig hafa góða möguleika á sigri þar sem þeir þekki siglingaleiðina mjög vel.
Mikil viðhöfn var í Paimpol vegna keppninnar, fjölbreytt dagskrá var skipulögð síðustu dagana og má því segja að bærinn hafi verið undirlagður. Íslenska áhöfnin segir, að bæjarbúar hafi verið þeim einstaklega hjálpsamir og greinilegt sé að þeir finni fyrir sterkum vináttutengslum við Íslendinga enda er saga bæjarins samofin veiðum við Ísland.
Allur undirbúningur keppninnar og viðtökur hafa gengið vonum framar og verður því unnið að því að gera siglingakeppni frá Paimpol til Reykjavíkur að árlegum viðburði.
Íslenska áhöfnin er með heimasíðu www.besta.is þar sem hægt verður að fylgjast með ferð hennar yfir hafið.