Mestur siglingahraði á Bestu

Staðan í keppninni á hádegi og er leið Bestu lengst …

Staðan í keppninni á hádegi og er leið Bestu lengst til vinstri. Hafa skipverjar greinilega grætt á því að leita í hagstæðan byr til vesturs því við það hefur hún dregið aðrar skútur uppi.
mbl.is

Skútan Besta var komin upp í þriðja sæti í siglingakeppninni frá Paimpol í Frakklandi til Reykjavíkur á hádegi að íslenskum tíma. Átti hún þá ófarnar 319,2 sjómílur til borgarinnar. Var hraði hennar mestur, að því er fram kemur á heimasíðu keppninnar á Netinu, eða 9,28 mílur á klukkustund; tæplega tveimur mílum meira en ferðhraði forystuskútunnar, Gravlinga, var á sama tíma en hún var rúmum 12 mílum nær Reykjavík hálfri annarri stundu áður en Besta gaf upp staðsetningu sína svo munurinn á þeim er nokkru meiri.

Skútan í öðru sæti var aðeins hálfri sjómílu á undan Besta á hádegi en miðað við hraða þeirra hefði átt að draga saman með þeim fljótlega upp úr hádegi. Á heimasíðu Besta í dag kemur að sl. nótt hafi verið siglt í hliðarvindi en sé að snúast meira í beitivind. „Höfrungar voru rétt í þessu (kl. 08:30) að koma að Bestu að nýju. Sólin kom mjög fallega upp í austri og skín nú skært á Bestu. Mikil stemmning er um borð og eykst með hverri mílu sem nær dregur Íslandi," segir m.a. á síðunni í dag. Besta, sem siglir undir nafninu Gwenmor í keppninni, var á 59,06 gráðu norðlægrar breiddar og 21,57 vestlægrar lengdar klukkan 12:36.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert