Skútan Gven Mor, öðru nafni Besta, endaði í níunda sæti í keppninni frá Paimpol til Reykjavíkur þrátt fyrir að vera fyrst í mark. Verður því við ramman reip að draga fyrir áhöfnina er siglt verður til baka til Paimpol á morgun. Tíu skútur sigldu til Íslands en ein þeirra, tvíbytnan Magnolia, telst ekki með.
Ástæða þessa er að keppt er eftir forgjöf og er hún óhagstæð Bestu þar sem hún er stærri og hraðskreiðari en aðrar keppnisskútur. Lokatími í mark er margfaldaður með forgjöfinni og því reyndist leiðréttur árangur Bestu þann veg að hún er í níunda og neðsta sæti þegar keppnin er hálfnuð þótt hún hafi verið fljótust á leiðinni til Reykjavíkur. Þar sem Besta er langhraðskreiðasta skútan, enda sérhannaður úthafskappsiglari sem hefur mikinn ganghraða, þurfti hún að hafa verulegt forskot á aðrar skútur til að halda sætinu. Var forgjöfin sett upp til að allar áhafnir stæðu jafnar að vígi án tillits til þess báts sem þær sigldu. Röð báta eftir fyrri helming keppninnar er sú að fyrst er skútan Diaoul Gwen en leiðréttur tími hennar er 8 dagar 6 stundir, 11:34 mínútur. Næsta skúta, Branec, er 4:40 stundum á eftir og sú þriðja, Tamoil, 5:20 stundum á eftir. Besta kom á mark eftir 8 dagar og 4:03 stunda siglingu en leiðréttur tími er 10 dagar 19:34:29 stundir eða tveimur dögum og 13:23 stundum á eftir Diaoul Gwen.