Þegar Morgunblaðið hafði samband við Baldvin Björgvinsson, skipstjóra Bestu, í gærkvöld, var skútan að nálgast Reykjanesvitann. Hann sagði að siglingin út Faxaflóa hefði verið leiðinleg, þar sem lítill sem enginn byr hefði verið og að það sem helst hefði skemmt mönnum hefðu verið hvalirnir sem fylgdu skútunni meðfram Reykjanesinu.
Í gærkvöld var ein skúta á undan Bestu, en Baldvin sagðist gera ráð fyrir því að ná henni í dag eða á morgun.
Þess má geta að þrátt fyrir að koma fyrst í mark í keppninni frá Paimpol til Reykjavíkur er Besta í níunda sæti í keppninni, en keppt er eftir forgjöf, sem er óhagstæð Bestu þar sem hún er stærri og hraðskreiðari en hinar keppnisskúturnar.