ÍSLENSKA skútan Besta, sem tekur þátt í siglingakeppninni á milli Íslands og Frakklands, kom fyrst keppenda í mark þegar hún lagðist að bryggju í hafnarborginni Paimpol um klukkan hálfátta í gærkvöld. Að sögn Arnþórs Ragnarssonar stýrimanns var vindátt mjög hagstæð og þeytti hún skútunum á mettíma að meginlandi Evrópu og var Besta með vindinn 60 til 90 gráður á stjórnborðshlið allt frá Reykjanesi að Írlandi og náði allt að 20 sjómílna hraða, sem jafngildir um 36 kílómetra hraða á klukkustund.
Besta er komin inn á Ermarsund og í gær átti hún um 100 sjómílna siglingu eftir til Paimpol í Frakklandi. Þegar Besta nálgaðist Írlandsstrendur sigldi hún í gegnum tvenn lægðaskil og var siglingin erfið í slæmu veðri þar sem vindhraðinn náði um 40 til 45 hnútum.
Sluppu með skrekkinn
Að sögn Arnþórs var ölduhæðin um 10 metrar og minnstu munaði að illa færi þegar skútan æddi niður einn öldudalinn og stakk sér inn í aðra öldu, en þegar það gerðist voru tveir úr áhöfninni staddir fremst á bátnum fyrir ofan stefnið. Mennirnir sluppu hins vegar með skrekkinn en áhöfn á afturdekki brá heldur í brún því í nokkrar sekúndur sást ekki í þá félaga.