Skútan Besta lenti annars vegar í síðasta sæti í siglingakeppni Skippers D'Islande sem lauk á dögunum og hins vegar í sjöunda sæti.
Tvær aðferðir voru notaðar til að reikna út árangur, annars vegar var lagður saman tími og hins vegar var um stigagjöf að ræða. Tíu skútur hófu keppni en ein hætti áður en keppni lauk.
"Ég er bara mjög ánægður," sagði skipstjóri skútunnar, Baldvin Björgvinsson, í samtali við Morgunblaðið. "Ferðin gekk svona upp og ofan en við gerðum það sem við ætluðum okkur að gera. Keppni eins og þessi þar sem keppt er eftir forgjöf er alltaf spurning um heppni líka og við vorum ekki sérlega heppnir." Keppni eftir forgjöf var óhagstæð Bestu þar sem hún var stærri og hraðskreiðari en aðrar skútur í keppninni.
Í keppninni lenti skútan Diaoul Gwen í fyrsta sæti í tímahlutanum en skútan Branec í stigahlutanum.
Um helgina fer fram verðlaunaafhending í keppninni í bænum Paimpol og verður Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri Reykjavíkur viðstödd.