Uppselt í Herjólf á bikarúrslitadaginn

Uppselt er fyrir bíla í Herjólf daginn sem bikarúrslitin fara fram en ÍBV mætir ÍA á Laugardalsvellinum í úrslitaleik bikarkeppninnar í knattspyrnu sunnudaginn 24. september. Enn þá er þó laust fyrir farþega.

Eggert Garðarsson, varaformaður knattspyrnudeildar ÍBV, segist ekki hafa áhyggjur af því að stuðningsmenn liðsins komist ekki á staðinn. „Þeir komast sem vilja komast. Ég hugsa líka að margir eigi eftir að notfæra sér kvöldferðina á föstudeginum og svo er einnig hægt að fljúga." Eggert upplýsir að bæði Eyjamenn og Skagamenn hafi óskað eftir að færa leikinn yfir á laugardag en enn þá eigi eftir að koma í ljós hvort af því verði. „Ég geri ráð fyrir því að þeir sem eiga miða í Herjólf á sunnudeginum fái honum breytt." Knattspyrnudeild ÍBV stefnir á að standa fyrir dansleik kvöldið fyrir leikinn sem og að stefna stuðningsmönnum liðsins saman áður en leikurinn hefst til að hita upp. Eggert segir að strax á mánudagsmorgun verði komið í ljós með hvaða hætti verði staðið að skemmtununum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert