Stjórn Félags tónskálda og textahöfunda, FTT, mótmælir áformum útvarpsráðs um fyrirhugaðar breytingar á reglum vegna þátttöku Ríkisútvarpsins í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva en nú eiga höfundar að semja og flytja verk sín í aðalkeppninni á íslensku. Telur stjórn FTT að með þessu sé höggvið að sjálfsákvörðunarrétti höfunda og þeim settar listrænar skorður.
Í ályktun stjórnar FTT segir að augljóst sé að slík áform fari á svig við reglubreytingar sem stjórn keppninnar gerði fyrir þremur árum, sem m.a. eigi að stuðla að því að þátttakendur smærri þjóða eigi greiðari aðgang að eyrum áhorfenda. Þá segist stjórn FTT þykja einsýnt að fyrirhugaðar breytingar verði til þess að skerða möguleika höfunda á því að ná árangri í keppninni og um leið að koma tónlist sinni á framfæri utan Íslands. Stjórnin telur að með þessum hætti séu fulltrúar ríkisvaldsins síður en svo að stuðla að útbreiðslu íslenskrar menningar eða framgangi íslenskra höfunda, flytjenda og útgefenda erlendis. Það er von stjórnar FTT að útvarpsráð sjái sig um hönd og breyti afstöðu sinni.