Stjarnan hættir útsendingum

Norðurljós hf. stöðvuðu á mánudaginn útsendingar útvarpsstöðvarinnar Stjörnunnar FM 102,2, en stöðin er ein af átta stöðvum fyrirtæksins og lék eldri dægurtónlist. Halldóra Ingimarsdóttir, verkefnisstjóri útvarpssviðs Norðurljósa, sagði að einnig væri fyrirhugað að stöðva tímabundið útsendingu á Rokk FM 97,7 á næstu dögum. Hún sagði að þetta væri gert vegna skipulagsbreytinga innan útvarpssviðsins en að ekki kæmi til uppsagna starfsmanna vegna þessa.

Halldóra sagði að fyrirtækið Norðurljós ræki átta útvarpsstöðvar, þ.e. Bylgjuna, FM957, Radíó X, Gullið, Létt, Mónó, Klassík og Sögu. Hún sagði að Stjarnan hefði að mörgu leyti verið lík Gullinu og það hefði átt þátt í þeirri ákvörðun að leggja hana niður.

Halldóra sagði að engar frekari skipulagsbreytingar væru framundan hjá útvarpssviði Norðurljósa. Hún sagði að nokkuð væri um breyttar áherslur í rekstri útvarpssviðs Norðurljósa og að t.d. hefði mikil áhersla verið lögð Sögu FM 94,3 að undanförnu, sem væri stöð sem aðeins léki íslenska tónlist. Hún sagði að um jólin yrði stöðin kynnt sérstaklega undir nafninu Jólasaga og að þá yrðu einungis leikin íslensk jólalög á stöðinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka