Andstæðingar flugvallar í Vatnsmýrinni í Reykjavík standa í dag fyrir borgarafundi þar sem ætlunin er að stofna samtök gegn flugvellinum. Fundurinn hefst kl. 16 í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur.
Fulltrúar borgarstjórnarflokkanna munu þar lýsa afstöðu sinni. Hallgrímur Helgason rithöfundur mun flytja erindi og hljómsveitin Miðnes spilar í kaffihléi. Andrés Magnússon er einn þeirra sem unnið hefur að stofnun samtakanna. Hann segir markmiðið með þeim einfaldlega verða að koma flugvellinum burt. "Okkur fannst nauðsynlegt að stofna samtök sem geta talað einni röddu," segir Andrés og minnir á að stuðningsmenn flugvallarins hafa þegar stofnað til félagsskapar. Hann segir samtökin þverpólitísk.
"Menn eru á móti þessum flugvelli af alls konar ástæðum," segir Andrés. Þeir hafi líka mismunandi skoðanir á því hvar flugvöllur fyrir innanlandsflug eigi að vera. Það sé í raun allt önnur og talsvert flóknari umræða. Það skorti einnig allar forsendur fyrir valkostum, s.s. umhverfismat og fjárhagsáætlun. Þó ekki sé búið að ákveða nákvæmlega um hvað verður spurt í kosningum um framtíð flugvallarins virðist flest stefna í það að Reykvíkingar geti valið um tvo kosti. Annaðhvort fari flugvöllurinn eða verði áfram í Vatnsmýrinni.
Andrés segir ljóst að samtökin muni eiga við ramman reip að draga þar sem ýmsir embættismenn hafi lýst þeirri skoðun sinni að flugvöllurinn eigi að vera áfram í Vatnsmýrinni og geti í raun hvergi annars staðar verið. "Þegar nær dregur kosningum er alveg ljóst að það verður ekki hjá því komist að auglýsa," segir Andrés.
Samtökin muni því væntanlega safna peningum til að standa straum af auglýsingum til styrktar málstaðnum.
Aðspurður um hvenær hann komst fyrst á þá skoðun að flugvöllurinn þyrfti að fara úr Vatnsmýrinni segir Andrés það hafa gerst þegar hann ók nær daglega um Hringbrautina vegna vinnu sinnar. Þegar ekið sé austur eftir Hringbrautinni sé útsýni yfir fallegasta svæði Reykjavíkur á vinstri hönd þar sem Hljómskálagarðurinn er. Á hægri hönd sé ljótasti blettur borgarinnar, þ.e. flugvöllurinn. "Fólk hefur í nokkur þúsund ár ákveðið að byggja borgir saman. Það hefur ekki gert það vegna þess að það sé svo frábært flugvallarstæði þar. Það gerir það af því að það vill vera í samneyti við annað fólk," segir Andrés. Hann segir jafnvel þá sem vilja halda flugvellinum í Vatnsmýrinni gera sér grein fyrir því að það kæmi að því að flugvöllurinn þyrfti að fara. Spurningin væri bara hvenær.
"Ég spyr bara. Hvers er að bíða?"