"Birta" verður flutt á íslensku í Evróvisjón

Einar Bárðarson, höfundur lagsins „Birta", sem er framlag Íslands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann segir að lagið verði flutt á íslensku í keppninni. „Ég hef nú í samráði við fjölskyldu og nánustu vini tekið þá ákvörðun að fara til Kaupmannahafnar og færa Evrópu Birtu á íslenskri tungu," segir í tilkynningunni frá Einari.

„Ég lít ennþá svo á að þátttaka í keppninni sé gott tækifæri fyrir íslenskan lagahöfund. Það hefði þó sannarlega verið heppilegra ef Útvarpsráð hefði farið að því sem virðist vera vilji meirihluta þjóðarinnar og leyft að lagið yrði sungið á ensku. Það hefði aukið möguleika lagsins í keppninni sem og aukið líkur á útgáfu þess á erlendri grund," segir í yfirlýsingunni. Einar segir að Útvarpsráð hafi tekið sér það vald að ákvarða að lagið skuli sungið á íslensku í hinni alþjóðlegu keppni. „Ég sem einstaklingur ætla ekki að halda baráttu gegn þeirri ákvörðun áfram," segir Einar í tilkynningunni. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fer fram í Kaupmannahöfn 12. maí næstkomandi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert