Fyrstu álftarungar sumarsins

Morgunblaðið/Ómar

Þessir vikugömlu álftarungar, sem voru að spóka sig með foreldrum sínum á Bakkatjörn á Seltjarnarnesi í gærmorgun, eru með allra fyrstu álftarungum sem koma úr eggjum þetta árið og virtust bara ánægðir með lífið.

Íslenska álftin er í eðli sínu farfugl og kemur hingað snemma á vorin. Kjörlendið er mýri hvers konar, jafnt í byggð sem til fjalla. Gróðursælar tjarnir og stöðuvötn eru í miklu uppáhaldi. Hún er félagslynd, nema um varptímann; þá er hvert par út af fyrir sig. Varptími hefst yfirleitt í kringum 15. maí. Hér á landi eru eggin að jafnaði 3-5 talsins en í Rússlandi t.d. 4-7. Útungun tekur 31-42 daga og sér kvenfuglinn einn um ásetuna en steggurinn er á verði á næstu grösum. Ungarnir skríða dúnklæddir úr eggi og njóta mikillar umhyggju. Þeir verða fleygir 78-96 daga gamlir. Ungfuglar eru öskugráir með ljósbleikt nef, dökkleitt fremst.

Mestur hluti íslenska álftastofnsins fer til Bretlandseyja á haustin, einkum Skotlands og Írlands, en einhverjar verða hér eftir, einkum ef þær finna sér verulegt æti. Þannig eru fuglar árið um kring á helstu lindasvæðum Íslands, bæði á Norðausturlandi og Suðurlandi og einnig með sjó þar sem aðgrunnt er og sjaldan leggur, einkum við suðvestanvert landið.

Íslenski álftastofninn mun í dag vera 1.500-2.500 varppör.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert