Grundvallarþættir efnahagslífsins traustir

"Ég tel mikilvægt að rifja upp grunnþætti í efnahagsstyrk Íslands, sem eru mjög traustir," segir Halldór Jón Kristjánsson, bankastjóri Landsbanka Íslands, þegar hann er inntur eftir viðbrögðum við endurskoðaðri þjóðhagsspá. Varðandi gengismálin, sem skipta miklu máli í verðbólguþróun, minnir Halldór á að í nóvember hafi Þjóðhagsstofnun óskað eftir spá allra helstu fyrirtækja á fjármálamarkaði fyrir árið 2001 og að meðalspáin hafi gert ráð fyrir því að gengisvísitalan yrði um 124 stig á þessu ári, en hún var 145,88 stig þegar markaðir lokuðu í gærkvöld.

"Ég geri mér grein fyrir því að forsendur hafa breyst frá því markaðsaðilar spáðu þessu, en miðað við undirliggjandi styrkleikaþætti í efnahagslífinu tel ég að hér sé klárlega um yfirskot að ræða," segir Halldór. "Grunnþættir efnahagslífsins eru mun áhættudreifðari en fyrir fimm árum, miklir vaxtamöguleikar eru í ferðaþjónustu, líf- og erfðatækni og ónýttum orkulindum. Gagnstætt því sem er í mörgun OECD-ríkjum er lífeyriskerfi okkar fullfjármagnað og það þrátt fyrir ungan meðalaldur þjóðarinnar. Þá hafa skuldir ríkissjóðs lækkað," segir Halldór.

Beðið mats Seðlabankans

Hann segir að vöxtur í útlánum hafi minnkað verulega undanfarið, a.m.k. hjá Landsbankanum. "Sérstaklega hefur raunaukning útlána verið minni en á liðnum misserum," segir hann. Halldór segist verða var við almennt aukið aðhald í útlánamálum og breytta hegðun viðskiptavina.

Hann vill ekki segja hvort hann telji líkur á að verðbólgan verði í takt við það sem fram kemur í spá Þjóðhagsstofnunar og segist hann telja að viðskiptahallinn verði minni en spáin segir til um.

"Ég tel að í umræðunni sé því miður allt of mikið verið að einblína á skammtímamótbyr sem við verðum vör við á nokkrum sviðum, en menn gleymi undirliggjandi styrk íslensks efnahagslífs og miklum vaxtarmöguleikum hér langt umfram það sem forsendur eru fyrir hjá samkeppnisþjóðum okkar. Brýnt er að gleyma ekki þessum grundvallarstærðum," sagði Halldór.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert