Lagðir inn á gjörgæsludeild með alvarlega brunaáverka

Tveir starfsmenn verktakafyrirtækisins Kerfóðrunar ehf. voru lagðir inn á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut eftir að hafa brennst í alvarlegu vinnuslysi sem varð við sprengingu í kerskála 3 í álverinu í Straumsvík í gærmorgun.

Í fréttatilkynningu frá Jens Kjartanssyni, yfirlækni lýtalækningadeildar Landspítala - háskólasjúkrahúss, segir að báðir hafi reynst vera með alvarlega brunaáverka. Annar þeirra brenndist á 80% hluta líkamans en hinn á 35% líkamans. Annar fór í aðgerð á sjúkrahúsinu í gær. Ástand þeirra er eftir atvikum en er enn alvarlegt.

Auk lögreglu var 14 manna lið Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins sent á vettvang og fjórar sjúkrabifreiðir og neyðarbifreið. Mikill reykur myndaðist við sprenginguna, sem var mjög öflug, og náði reykurinn yfir um 100 metra kafla á þaki byggingarinnar. Ekki myndaðist eldur að ráði og beindist því starf slökkviliðsins aðallega að því að finna hina slösuðu og meðhöndla þá. Björgunarstarf reyndist tafsamara en ella, þar sem misvísandi upplýsingar voru um fjölda slasaðra.

Rannsóknadeild lögreglunnar í Hafnarfirði hefur tekið tildrög slyssins til rannsóknar.

Verið að undirbúa gangsetningu rafgreiningarkers

Tilkynnt var um slysið klukkan 9.26 í gærmorgun. Samkvæmt upplýsingum ÍSAL varð slysið þegar verið var að undibúa gangsetningu rafgreiningarkers í kerskála 3. Ljósbogi, eða skammhlaup, myndaðist þar sem starfsmennirnir voru að störfum með áðurgreindum afleiðingum. Samkvæmt upplýsingum fulltrúa Vinnueftirlits ríkisins, sem kannaði aðstæður á vettvangi, er slysið að hluta til rafmagnsslys. Sprenging varð í kerinu og var í fyrstu talið að um gassprengingu hefði verið að ræða. Við nánari könnun kom í ljós að svo var ekki. Ennfremur var talið í fyrstu að fjórir menn hefðu slasast í sprengingunni en svo reyndist ekki vera. Samkvæmt upplýsingum ÍSAL var um að ræða venjubundin verk sem vinna þarf fyrir gangsetningu allra kera en á hverju ári eru gangsett um 100 ker. Hafin var könnun á því í gær hvað fór úrskeiðis.

Að sögn Einars Guðmundssonar, staðgengils forstjóra ÍSAL, var kallað eftir öllu því hjálparliði sem unnt var eftir að slysið varð. "Það hófst strax rannsókn, eins og alltaf þegar eitthvað kemur fyrir," sagði Einar í samtali við Morgunblaðið. Sagði hann að farið yrði yfir alla öryggisþætti fyrirtækisins í forvarnarskyni.

Halldór Halldórsson öryggisfulltrúi ÍSAL sagði að þrátt fyrir sprenginguna hefði lítið sem ekkert tjón orðið í kerskálanum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert