Fréttamenn Sky fylgjast með Íslandsmótinu í krikket

Frá keppni sem fram fór hér á landi í fyrra …
Frá keppni sem fram fór hér á landi í fyrra þegar enskt krikketlið kom í heimsókn til Íslands. AP

Íslandsmeistaramót í krikket verður haldið á Tungubakkavelli í Mosfellsbæ í dag. Er þetta í annað sinn sem mótið er haldið og í þetta sinn munu eigast við tvö lið, sameiginlegt lið Kylfunnar frá Reykjavík og Glaums frá Stykkishólmi, sem tókust á í fyrra þegar mótið var haldið í fyrsta sinn, og nýtt lið sem samanstendur að mestu leyti af starfsmönnum Tryggingamiðstöðvarinnar.

Hefur það vakið nokkra athygli erlendis að krikket sé stundað sem keppnisíþrótt hér á landi og eru íþróttafréttamenn frá bresku sjónvarpsstöðinni Sky komnir hingað í þeim tilgangi að flytja fréttir af keppninni. Ragnar Kristinsson er formaður Íslenska krikketsambandsins, sem er meðlimur í Evrópska krikketsambandinu ECC, og segir hann að þaðan fái þeir sendan löglegan búnað til keppninnar. Eins sé búið að ganga úr skugga um að völlurinn sem keppt verður á, Tungubakkavöllur, sé löglegur.

Komnir í hálfgert öngstræti í þjálfaramálum

„Þetta er allt mjög óformlegt, en við skráðum okkur samt í ECC og þaðan fengum við styrk, búnað og annað,“ segir Ragnar. „Þannig komst einhver blaðamaður í málið og varð svona heillaður af því að það skyldi vera keppt í krikket á Íslandi. Hann tók viðtal við mig nú rétt fyrir áramót fyrir „Wisden almanak", sem er árbók og að mér skilst einskonar biblía krikketáhugamanna. Það virðist hafa vakið nokkurn áhuga og síðan hefur síminn varla stoppað. Það var birt viðtal við mig í London Times um krikket á Íslandi og nú eru þeir að koma frá Sky til að fylgjast með mótinu," segir Ragnar. Aðspurður segist hann ekki geta ímyndað sér hvað það sé sem veki þennan áhuga manna á krikketiðkun hér á landi, en hann segir starfsfólk ECC hafa tjáð þeim að fyrirspurnir um krikket á Íslandi séu í miklum meirihluta allra þeirra fyrirspurna sem sambandinu berist. „Ætli þeim finnist ekki bara skrýtið að það sé hægt að leika krikket hérna. Ég veit eiginlega ekki hvort við ættum að segja þeim að það sé varla leikið krikket á Íslandi. Þetta er svona hálfgert öngstræti sem við erum komin í. Nýlega fengum við svo sendan þjálfara frá ECC, við vorum búin að humma það fram af okkur í meira en ár að taka við honum en þeir vildu ólmir senda hann. Svo kom hann og sagði okkur að við værum í klassa rétt fyrir ofan Tékkland og Lúxemborg."

Ragnar segir leikmenn liðanna mjög spennta fyrir keppni dagsins. Þeir séu margir ágætlega færir og að nýliðar hafi fengið góða kennslu og þjálfun á undanförnum dögum. „Við leikum eftir reglunum og það er aðalatriðið. Svo eru allir í hvítum búningum eins og venja er. Fyrst við erum að spila þetta, viljum við náttúrlega vera flottir og reynum að bæta upp fyrir getuna með því að líta vel út. Síðan höldum við að sjálfsögðu uppi rétta „krikket- andanum“, sem er heiðarleiki, góð framkoma og almenn prúðmennska út í gegn," segir Ragnar og tekur fram að allir áhugasamir séu velkomnir á Tungubakkavöll í dag, en keppnin hefst klukkan 12:30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert