Björk í 19. sæti bandaríska Billboard-listans

Björk Guðmundsdóttir.
Björk Guðmundsdóttir. mbl.is

Vespertine, hin nýútkomna breiðskífa Bjarkar Guðmundsdóttur, komst í 19. sæti í fyrstu viku á Billboard-listanum bandaríska. Þetta er langbesti árangur Bjarkar í Bandaríkjunum en áður hafði hún efst komist í 72. sæti Billboard-listans. Á sérlista Billboard fyrir raftónlist fór Björk strax í fyrsta sæti.

Sala plötunnar í Bandaríkjunum, og reyndar Frakklandi og Japan einnig, er nú orðin fjórum sinnum meiri en var með síðustu plötu Bjarkar, Homogenic, að sögn Ásmundar Jónssonar hjá útgáfufyrirtækinu Smekkleysu, sem gefur plötuna út hér á landi. Hann segir að Vespertine hafi selst tvisvar sinnum meira á heimsvísu fyrstu vikuna eftir útgáfu en Homogenic gerði.

700 þúsund eintök seldust fyrstu vikuna

Búið er að selja um 700 þúsund eintök af plötunni fyrstu vikuna en Ásmundur segir að venjan hafi verið að 3-4 milljónir eintaka af plötum Bjarkar hafi selst á því tveggja ára kynningar- og hljómleikatímabili sem fylgt hafi útgáfu nýrrar skífu.

Björk kom fram í spjallþætti Davids Lettermans, einum vinsælasta spjallþætti Bandaríkjanna, sl. þriðjudag og söng lagið Pagan poetry af nýju plötunni.

Björk fylgir plötunni eftir með tónleikahaldi um allan heim. Hún mun halda tónleika hér á landi síðar í haust.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert