Björk segir að bestu tónleikarnir verði á Íslandi

Björk Guðmundsdóttir.

Björk Guðmundsdóttir.
mbl.is

Björk Guðmundsdóttir er nú á tónleikaför um heiminn til að kynna breiðskífu sína Vespertine. Í þeirri ferð stendur til að hún leiki hér á landi í desember og í viðtali við Morgunblaðið segir hún að sig skipti miklu að bestu tónleikarnir verði einmitt hér á landi.

Vespertine hefur fengið góða dóma en Björk segist reyna að lesa sem fæsta dóma, hvort sem þeir séu góðir eða vondir, því að þeir hafi alltaf áhrif, "sama hvað maður þykist vera öruggur með sig".

Á nokkrum tónleikum hefur Björk sungið án hljóðnema og segir hún það mikinn létti, því henni finnist hún ekki skila nema 30% af því sem hún vill þegar hún er með hljóðnemann í hendinni.

Björk syngur á ensku á plötum sínum og tónleikum erlendis en segist í viðtalinu munu syngja á íslensku hér á landi eins og hingað til. "Þegar ég byrjaði að syngja söng ég hljóð í fimm ár. Síðan fór ég að reyna að setja íslensk orð í staðinn fyrir hljóðin og svo tóku við mörg ár þar sem ég hélt tónleika og starfaði erlendis. Mér finnst ég hafa sungið á ensku án þess að selja í mér tunguna af því að ég gekk í gegnum allt hitt fyrst... Það er ekkert slæmt að syngja á ensku; það fer eftir því við hvern þú ert að tala. Þess vegna mun ég alltaf syngja á íslensku þegar ég er á Íslandi, annað væri bara rugl."

Vonir standa til þess að innan hálfs mánaðar verði búið að ganga frá samningi um tvenna tónleika Bjarkar með Sinfóníuhljómsveit Íslands rétt fyrir jól eins og kemur fram í viðtali við Þröst Ólafsson, framkvæmdastjóra Sinfóníunnar, í blaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert