Lítil myntsvæði berskjölduð fyrir sveiflum

Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka iðnaðarins, hóf dagskrá ráðstefnunnar á að kynna niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar, sem Gallup gerði fyrir samtökin. Voru helztu niðurstöður þær, að helmingur (49,9%) aðspurðra Íslendinga svöruðu því játandi að þeir væru fylgjandi aðild Íslands að Evrópusambandinu, 37% sögðust andvíg og 13,1% tók ekki afstöðu. Úrtakið var 1200 manna slembiúrtak úr þjóðskrá og var svarhlutfallið 68,3%.

Vakti Vilmundur athygli á því, að munurinn á fjölda fylgjenda og andstæðinga ESB-aðildar hefði vaxið um tæp 7 prósentustig frá síðustu sambærilegri könnun, sem gerð var í febrúar sl.

Er spurt var um afstöðu fólks til þess hvort taka bæri upp evruna á Íslandi í stað krónunnar var niðurstaðan ekki eins afgerandi. 44% sögðust fylgjandi því að fá evruna, 45% ekki og 11% sátu hjá. Félagsmenn SI voru líka spurðir sömu spurninga og kom í ljós töluverður munur á afstöðu þeirra og almennings. 57,8% félagsmanna vildu að sótt yrði um aðild að ESB og 67% vildu að evran kæmi í stað krónunnar. 30% félagsmanna sögðust andvígir bæði ESB-aðildarumsókn og upptöku evrunnar.

Stefna íslenzkra stjórnvalda á skjön við almenningsvilja

Sagði Vilmundur þessar niðurstöður staðfesta að stjórn samtakanna væri að framfylgja eindregnum vilja félagsmanna með afdráttarlausri stefnu sinni í Evrópumálum. "Við hjá Samtökum iðnaðarins erum sannfærð um að þátttaka Íslands í evrópsku samstarfi hefur verið til heilla fyrir allt íslenzkt atvinnu- og efnahagslíf, ekki bara iðnaðinn," sagði hann. Gekk hann svo langt að fullyrða, að nú væri svo komið að "nóg sé komið af biðinni" og tímabært að sækja um aðild að ESB og þar með fá aðgang að myntbandalaginu. Gengisóróleiki og verðbólga síðasta árs hafi sannfært marga um að Ísland sé ekki heppilegt myntsvæði og það "sé ekki rétt að borga milljarða fyrir sjálfstæða mynd og peningastefnu".

Þótt aðildin að Evrópska efnahagssvæðinu hafi gagnazt Íslendingum vel dugi hún ekki lengur til. "Þrátt fyrir ágæti EES-samningsins höfum við sannfærzt æ betur um það að hann dugir ekki til," sagði Vilmundur. "Rökrétt framhald er aðild að Evrópusambandinu. Því miður hafa flestir íslenzkir stjórnmálamenn hingað til sagt að aðild sé ekki tímabær, það verði að bíða og sjá. Við teljum hins vegar að nóg sé komið af biðinni og hún sé hreinlega til tjóns. Þá erum við þeirrar skoðunar að stjórnvöld haldi fram annarri stefnu í Evrópumálum en meirihluti landsmanna aðhyllist og er það umhugsunarefni."

Vakti Vilmundur athygli á því að í niðurstöðum skoðanakönnunarinnar kemur fram að konur, yngra fólk, tekjuhærri einstaklingar og kjósendur Framsóknarflokksins séu líklegri til að vera fylgjandi aðild en aðrir. "Þessar niðurstöður eru merkilegar ekki sízt í ljósi þess að stjórnvöld hafa hvað eftir annað lýst andstöðu sinni við aðild og talið hana glapræði fyrir Ísland. Samkvæmt könnuninni eru landsmenn ekki sammála því," sagði Vilmundur.

Viðkvæmni smárra og opinna hagkerfa

Aðrir framsögumenn á ráðstefnunni voru Arne Jon Isaksen, prófessor í hagfræði við Óslóarháskóla, Johnny Åkerholm, aðstoðarráðuneytisstjóri finnska fjármálaráðuneytisins, Ulf Jacobsson, framkvæmdastjóri Efnahagsstofnunar iðnaðarins í Svíþjóð, Graham Bishop, sem starfar sem viðskiptalífsráðgjafi í Bretlandi, sérhæfður í Evrópumálum, og Sixten Korkman, sem er Finni og starfar sem framkvæmdastjóri um myntbandalagsmálefni hjá ráðherraráði ESB.

Í framsöguerindum Svíans Jacobssons og Finnans Åkerholms var sameiginleg sú áherzla sem þeir lögðu á veikleika lítilla, opinna þjóðhagkerfa - bæði Svíþjóð og Finnland, sem þó eru á bilinu 15-30 sinnum stærri hagkerfi en hið íslenzka, hefðu rekið sig á hve lítil myntsvæði væru berskjölduð fyrir alvarlegum sveiflum eftir að hömlur á fjármagnsflutninga milli landa voru afnumdar. Finnar og Svíar gengu í ESB í ársbyrjun 1995, en báðar þjóðir gengu í gegnum erfiða efnahags- og fjármálakreppu á fyrstu árum tíunda áratugarins.

Åkerholm, sem sjálfur átti virkan þátt í undirbúningi ESB- og EMU-aðildar Finnlands, sagði aðildina tvímælalaust hafa hjálpað til við að koma aftur á stöðugleika í finnsku efnahagslífi, en mikilvægust hefði þó verið sú "tiltekt í eigin ranni" sem kreppan hefði rekið Finna út í að gera, þótt þær aðgerðir hafi að mörgu leyti verið sársaukafullar.

Sagði Åkerholm finnskt efnahagslíf vera með EMU-aðildinni verndað fyrir ytri áföllum vegna gengissveiflna. Fyrir lítið en opið hagkerfi sem ekki endilega fylgir sömu hagsveiflu og stóru löndin á evrusvæðinu væri það vissulega nokkur fórn að stjórnun peningamála sé nú í höndum Seðlabanka Evrópu í stað heimamanna en eins og Finnar hefðu spilað úr sinni stöðu hefði þetta farið vel, a.m.k. fram til þessa. Stjórnvöld aðildarríkja EMU yrðu að læra að samhæfa aðgerðir þegar harðnaði á dalnum á evrusvæðinu í heild. Agi í stjórn ríkisfjármála væri þar lykilatriði. Åkerholm rakti sem athyglisvert dæmi um viðkvæmni hagkerfis eins og þess finnska, að á árunum fyrir ESB-inngönguna, þegar finnskt efnahagslíf var að klóra sig upp úr kreppunni, hefðu 60% af viðskiptum með hlutabréf í finnsku kauphöllinni verið með bréf Nokia. Fyrirtækið væri nú að 85% í eigu útlendinga. Þessi viðskipti hefðu dregið mikla erlenda fjárfestingu inn í finnskt efnahagslíf þegar einmitt var mest þörf á henni og taldi Åkerholm þetta eitt hafa bjargað gengi finnska marksins frá því að falla eins illilega og sænska krónan og fleiri gjaldmiðlar um þetta leyti.

Ópera frekar en króna?

Ulf Jacobsson talaði væntanlega fyrir munn margra útlendinga sem til Íslands koma er hann sagði að í hvert sinn sem hann kæmi hingað furðaði hann sig á því að sjá hvernig svo lítið þjóðfélag sem það íslenzka gæti haldið úti öllum þeim stofnunum sem nútímaiðnríki státar af - þar með talið eigin mynt og óperu. "Ef til vill væri skynsamlegra fyrir Íslendinga að halda óperunni en krónunni," sagði hann til að setja ályktanir sínar í íslenzkt samhengi, að vísu meira í gamni en alvöru.

Jacobsson gerði einnig að umtalsefni þá staðreynd, að einörðustu efasemdarmennirnir um þátttökuna í ESB og EMU væru í Svíþjóð lengst til vinstri í stjórnmálum, en í Bretlandi - þar sem stjórnvöld fylgdu einnig "bíðum og sjáum"-stefnu í evru-málinu - væru þeir lengst til hægri.

Graham Bishop spáði því að brátt komi að því að hið háa gengi sterlingspundsins gagnvart evrunni fái ekki staðizt lengur, og í kjölfar þess óróleika sem þetta óhjákvæmilega gengisfall muni valda muni ríkisstjórn Verkamannaflokksins sæta lagi og fá inngöngu í EMU samþykkta í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Gengi norsku krónunnar hefur haldist mjög stöðugt

Arne Jon Isachsen sagði að frá árinu 1992 og þangað til á þessu ári hafi gengi norsku krónunnar flotið en markmið peningastjórnunar hafi verið að viðhalda stöðugu gengi og sú stefna hafi tekist vel og norska krónan haldist furðanlega stöðug. Breytingar í utanríkisviðskiptum og þá einkum verð fyrir olíu, hafi ekki haft mikil áhrif á þróun gengisins og þar hafi norski olíusjóðurinn gegnt mjög mikilvægu hlutverki sem höggdeyfir. Þá hafi verið gott samræmi á milli peningamálastefnunnar, ríkisfjármálanna og tekjustefnu Norðmanna og allt hafi þetta gert það að verkum að gengisstefnan hafi reynzt vera trúverðug.

Í vor hafi seðlabankinn í Noregi hins vegar, líkt og sá íslenski, sett sér verðbólgumarkmið, þ.e. að verðbólgan skuli vera 2,5% með eins prósents vikmörkum. Öfugt við það sem gerzt hafi hér á landi hafi gengi norsku krónunnar haldizt stöðugt en líklegt sé að gengi hennar muni styrkjast samfara stækkandi olíusjóði.

Þrír valkostir

"Meginmarkmið peningastefnu," segir Isachsen, "hljóta ævinlega að vera að tryggja hagfellda þróun raunstærða í hagkerfinu." Til þess þurfi að tryggja stöðugt gengi myntar og halda verðbólgu innanlands innan eðlilegra marka. Þeir möguleikar sem bæði Íslendingar og Norðmenn standi frammi fyrir sé að halda sig við verðbólgumarkmið, þ.e. við núverandi peningastefnu, setja á fót sérstakt myntráð sem hefur það að markmiði að tengja krónuna evrunni, eða taka hreinlega upp evruna, annaðhvort einhliða eða með aðild að Evrópusambandinu.

"Gallinn við verðbólgumarkmið er að hætta er á of miklum gengissveiflum, þannig gæti til dæmis breyting á úthlutuðum kvótum á Íslandi eða verðbreytingar fyrir þorsk leitt til óeðlilega mikilla sveiflna á gengi íslensku krónunnar," segir Isachsen. "Á móti kemur aukið sjálfstæði seðlabankans í vaxtamálum og hann getur notað stýrivextina til þess að tryggja stöðugleika í hagkerfinu. Þess ber þó að geta í þessu sambandi að óskynsamleg vaxtastefna getur grafið undan stöðugleika."

Isachsen bendir á að miklu skipti að stefna seðlabankans við verðbólgumarkmið sé í senn ábyrg og gagnsæ og menn þurfi einnig að spyrja sig að því hvort nauðsynlegt sé að bæta þekkingu og kunnáttu innan íslenska seðlabankans við breytta peningamálastefnu.

Hagstjórnartækin önnur

"Gangi Íslendingar í Evrópusambandið og taki upp evruna er gengið gefið og vextirnir líka en verðbólgustigið á Íslandi þyrfti ekki endilega að vera það sama og meðaltalið í ESB-ríkjunum. En hagstjórnartækin verða önnur," segir Isachsen. "Ef við gefum okkur t.d. að þorskafli Íslendinga minnki og verðið lækki einnig þá er nauðsynlegt að verðbólgan sé minni á Íslandi til þess að bæta samkeppnisstöðuna, ekki verður hægt að lækka vextina til þess að auka innanlandseftirspurn og ekki verður lengur hægt að lækka gengið til þess að bæta útflutningsskilyrðin. Tækin sem menn hafa til þess að bregðast við svona skelli eru þá fyrst og fremst ríkisfjármálin og aukinn sveigjanleiki á vinnumarkaði."

Hvað utanríkisviðskiptin snertir yrði þá að ná niður kostnaði og verðlagi til þess að bæta samkeppnisstöðuna og það gæti táknað lækkun nafnlauna. Hvað innanlandseftirspurnina snertir yrði ríkið að lækka skatta eða auka útgjöldin til þess að ýta við eftirspurninni. Og Isachsen heldur áfram: "Í mínum huga vaknar sú spurning hvort efnahagsstjórn á Íslandi muni ekki í auknum mæli beinast að sjálfum raunstærðunum í hagkerfinu, sem allt veltur á, þegar bæði vextir og gengi eru gefnar stærðir. Þá má og nefna að líklegt er að samkeppni verði harðari þegar öll verð eru gefin í evrum en það mun aftur tryggja hagkvæmari nýtingu auðlindanna."

Isachsen segir aðild Norðmanna að ESB ekki vera til umræðu nú, aðild hafi tvisvar sinnum verið felld í þjóðaratkvæðagreiðslu. "Það kann að vera að ESB-aðild Íslands þurfi til að Norðmenn láti loks af henni verða."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert