Nútímatónlistarmenn geta lært af Björk

Tónleikar Bjarkar Guðmundsdóttur í Coliseum, húsakynnum ensku óperunnar í London, hlutu umtalsvert lof hjá óperugagnrýnanda breska dagblaðsins Daily Telegraph nú í vikubyrjun og segir hann hinn þrönga hóp sem kenni sig við "alvöru" nútímatónlist geta lært ýmislegt af söngkonunni.

"Úrvalsstefna er eitt sterkasta einkennið á tónlist Bjarkar. Tónlistarnám á unga aldri auk þátta úr pönktónlist, djassi, rafrænni tónlist og íslenskri tónlistarhefð eiga öll sinn þátt í lögum söngkonunnar. Tónleikarnir [í Coliseum] hefjast til að mynda með Björk í sviðsljósinu að snúa gamalli spiladós í gang, áður en sinfóníuhljómsveitin hefur að leika inngangsstef sem bókstaflega býr yfir göfugleik sem hæfði Wagner," segir í umsögn blaðsins. Söngstíll söngkonunnar er þá sagður eins konar sambland af pönki sem sveigist yfir í falsettu sópran. Sérkennilega barnslegir eiginleikar raddar Bjarkar hljóta þá samhljóm í heillandi dansi sem minnir meira á hopp leikskólabarna en tryllingslegar diskósveifur. "Sveipuð svörtum fjaðrabúningi sem virðist sambland Svanavatnins og Moulin Rouge virðist Björk týnd í eigin heimi og sýnir þess engin merki að ætla að snúa aftur til jarðar."

Að mati gagnrýnanda blaðsins vinnur Björk þó vel úr þessari blöndu sem auðveldlega hefði getað orðið tilgerðarleg. Sannfæring söngkonunnar á því sem hún geri veiti tónleikunum hins vegar bæði einlægni og heiðarleika. "Á slíkum augnablikum lætur Björk Madonnu minna á lítið annað en tómar glansumbúðir og minnir um leið óþægilega á það hve margir söngvaranna sem venjulega standa á þessu sviði skortir allan persónuleika," eru lokaorð Daily Telegraph.

Val Bjarkar á tónleikastöðum hefur þá einnig orðið breskum fjölmiðlum að umtalsefni, en hún á að hafa sýnt áhuga á að halda tónleika sína í Konunglega óperuhúsinu í Covent Garden áður en hún sættist á Coliseum.

Að mati dagblaðsins Independent er hins vegar töluverð skynsemi falin í þeirri ákvörðun útgáfufélags Bjarkar, One Little Indian, að reyna að höfða til aðdáenda klassískrar tónlistar, enda vísi söngkonan sjálf til tónlistarinnar á Vespertine sem eins konar nútíma kammertónlistar. Blaðið segir þó: "Björk er langt frá því að teljast til klassískra tónlistarmanna en semur tónlist sem hljómar eins og framtíðin sé þegar komin."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert