Þjóðleikhúsið
Vatn lífsins
Höfundur: Benóný Ægisson
Leikstjóri: Þórhallur Sigurðsson
Tónlist: Vilhjálmur Guðjónsson
Lýsing: Páll Ragnarsson
Búningar: Filippía I. Elísdóttir
Leikmynd: Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir
Leikarar: Anna Kristín Arngrímsdóttir, Atli Rafn Sigurðarson, Áslákur Ingvarsson, Edda Arnljótsdóttir, Gunnar Eyjólfsson, Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Hjalti Rögnvaldsson, Jóhann Sigurðarson, Jón Páll Eyjólfsson, Kjartan Guðjónsson, Margrét Guðmundsdóttir, Marta Nordal, Nanna Kristín Magnúsdóttir, Randver Þorláksson, Sigurbjartur Sturla Atlason, Snæfríður Ingvarsdóttir, Stefán Karl Stefánsson, Tinna Gunnlaugsdóttir, Valdimar Örn Flygenring, Valur Freyr Einarsson, Þórunn Lárusdóttir og Þröstur Leó Gunnarsson.
Vatn lífsins á það sammerkt með hinum tveimur fyrrnefndu verkum að vera verðlaunaleikrit, það hlaut önnur verðlaun ásamt Undir bláhimni eftir Þórarin Eyfjörð í leikritasamkeppni sem Þjóðleikhúsið efndi til vegna hálfrar aldar afmælis stofnunarinnar.
Aðalpersóna leiksins, ungur oflátungur, kemur heim frá útlöndum og vill standa fyrir framförum til að bæta hag lands og þjóðar og byggir höfundur þar að nokkru á sögulegum heimildum. Þessi ungi maður er mjög brothættur persónuleiki og geðbrigði hans og brennivínsþorsti eru athyglisverðasti þáttur verksins. Það er t.d. aldrei víst að hann sé í stakk búinn að koma draumum sínum í framkvæmd ef svo ólíklega vildi til að hann fengi til þess fullan stuðning þeirra sem ráða. Auk þess bjóðast tvær aðrar túlkunarleiðir: að áætlanir hans hafi orðið að engu vegna skilningsleysis ráðamanna eða að skapgerðarbrestir aðalpersónunnar hafi valdið því að jafnt almenningur sem valdamenn misstu trúna á hann og því sem hann vildi fá áorkað. Það er eins og höfundur vilji koma öllu þessu á framfæri og taki ekki afstöðu til þess hver skilningurinn sé réttastur. Þetta áhugaverða viðfangsefni en þannig ekki til lykta leitt.
Það verður ekki umflúið að velt sé fyrir sér áhrifavöldum höfundar í verki þar sem svo margt kemur kunnuglega fyrir sjónir. Sum atriðanna eiga margt skylt með þáttum úr sígildum bókmenntum þjóðarinnar eða þjóðsagnaminnum. T.d. sækir atriðið á hinu fljúgandi teppi óneitanlega ýmislegt í Galdra-Loft Jóhanns Sigurjónssonar; lýsingin á framtíðarborginni minnir á framtíðarsýn Arnalds í Sölku Völku Halldórs Laxness; niðursetningurinn á sér ótal systur í þjóðsögum og mæðginin á Brú og jafnt heldra fólkið í kaupstaðnum sem vatnsberarnir eru alþekktar klisjur úr bókmenntum frá lokum nítjándu aldar og upphafi þeirrar tuttugustu. Búningarnir ýta enn undir þessa mynd af persónunum, þeir gefa ýkta mynd af muninum á fyrirfólki og alþýðu, heldri borgarar klæðast ljósum blúndum og híalíni en almenningur dökkum vaðmálsfötum.
Verkið einkennist af því að fljótt er farið yfir sögu og hvergi staldrað við til að gefa áhorfendum tækifæri til að velta efninu fyrir sér til hlítar eða til að kynnast persónunum betur. Í stað þess er brugðið upp hálfköruðum svipmyndum af þeim sem leikurunum ferst mjög misjafnlega úr hendi að gæða lífi.
Það er óhjákvæmilegt að velta því fyrir sér hverjar fyrirmyndir verksins eru hvað formið snertir. Helst minnir það á hinar ýmsu leikgerðir íslenskra skáldsagna sem hafa tröllriðið leikhúslífi hér á landi undanfarna áratugi. Þar er gjarnan reynt að koma miklu að á sem stystum tíma, fjöldamörgum persónum og ótal atriðum troðið inn í þröngan ramma sviðsverksins og þ.a.l. farið fljótt yfir sögu, sérstaklega ef engu má sleppa. Útkoman hér er brotakennd saga þar sem athyglinni er dreift of víða og persónusköpunin verður of yfirborðskennd fyrir vikið.
Aftur á móti er margt fagmannlega gert, leikstjórinn býður upp á margar sniðugar leiklausnir, sem oft á tíðum glepja hugann frá því sem höfundur vill koma til skila. Í verki sem snýst um persónu sem glatar öllu vegna skapgerðargalla, þ.e. dæmigerðri aðalpersónu í harmleik, ákveður leikstjórinn að gera sem mest úr spaugilegum þáttum verksins. Það tekst iðulega en dregur úr áhrifamætti þess og boðskapurinn fer fyrir ofan garð og neðan.
Stefán Karl Stefánsson er hér í aðalhlutverki, ungur leikari sem hefur orðið landskunnur fyrir hæfileika sína í gamanleik á örfáum árum. Honum tekst sniðuglega að gera Illuga að hlægilegu stertimenni en nær ekki að túlka sálarkvalir hans þegar syrtir í álinn. Atli Rafn Sigurðarson er tvístígandi í hlutverki Sigurðar bróður hans, veit ekki hvort hann á að gera hann að búralegri skrípapersónu eða leita á dýpri mið og gerir hvorugt. Í samanburði við þá eru Nanna Kristín Magnúsdóttir og Jón Páll Eyjólfsson alltaf trúverðug sem Ásta og Ingólfur, vinir Illuga sem einir standa með honum þegar fer að harðna á dalnum, Nanna Kristín nær ótrúlegri innlifun í túlkun sinni á hinum langkvalda niðursetningi. Börnin sem léku bræðurna og Ástu ung fóru mjög laglega með sín hlutverk.
Í smærri hlutverkum komust ýmsir leikarar á flug og brugðu upp skemmtilegum svipmyndum af liðinni tíð. Má þar helst nefna Margréti Guðmundsdóttur sem Gunnu vinnukonu, Eddu Arnljótsdóttur, Þröst Leó Gunnarsson og Gunnar Eyjólfsson sem vatnsberana. Heldri persónurnar voru mun stífari frá höfundarins hendi og grínið fyrirsjáanlegra. Þannig er vart hægt að segja annað en að Tinna Gunnlaugsdóttir, Valdimar Örn Flygenring, Marta Nordal, Jóhann Sigurðarson, Hjalti Rögnvaldsson, Randver Þorláksson, Kjartan Guðjónsson og Guðmundur Ingi Þorvaldsson hafi leitað á fornar slóðir við persónusköpunina. Sama má segja um Önnu Kristínu Arngrímsdóttur í einsleitu hlutverki móður Illuga. Valur Freyr Einarsson átti góðan sprett sem skapheitur tómthúsmaður og Þórunn Lárusdóttir sýndi nýja hlið á sér sem hin forsmáða læknisdóttir.
Það er eitt að sækja umfjöllunarefni sitt til loka nítjándu aldar; það er annað að efnistökin séu frá sama tíma. Hér vantar allan frumleika, jafnt frá hendi höfundar sem leikstjóra. Hér er allt eins hefðbundið og verða má - nema leikmyndin sem er framúrstefnulegur leikur að formum og litum. Ef leikritið hefði verið frumsýnt fyrir hundrað árum hefði það þótt tíðindum sæta.
Eina erindið sem það á við nútímaáhorfendur er kannski að minna á hve smekkurinn hefur lítið breyst frá því að kvartað var yfir dönsku söngvasmælki á verkefnaskrá leikhúsanna í bænum í byrjun síðustu aldar. Sem fyrsta leikrit sem frumsýnt er á stóra sviði Þjóðleikhússins á fyrsta leikári nýs árþúsunds vekur það furðu.
Sveinn Haraldsson