Baldvin Þorsteinsson seldur til Þýskalands og Guðbjörgin aftur heim

Baldvin Þorsteinsson EA við bryggju.
Baldvin Þorsteinsson EA við bryggju. Morgunblaðið/Golli

Samherji hf. hefur ákveðið að ganga til samninga við útgerðarfyrirtækið Deutsche Fischfang Union í Cuxhaven í Þýskalandi (DFFU) um sölu frystiskipsins Baldvins Þorsteinssonar EA-10 til DFFU. Miðað er við að skipið verði afhent nýjum eiganda í febrúar á næsta ári. Jafnframt er gert ráð fyrir að Samherji hf. kaupi frystiskipið Hannover NC-100, sem áður hét Guðbjörg ÍS, af DFFU og því verði breytt í fjölveiðiskip, sem geti veitt og unnið rækju, bolfisk og uppsjávarfisk um borð. Gert er ráð fyrir að fjárfesting Samherja hf. í þessum viðskiptum við DFFU nemi sem svarar 265 milljónum króna.

Baldvin Þorsteinsson EA-10, sem er 995 brúttólesta frystiskip, var smíðaður í Noregi fyrir Samherja hf. og kom skipið til landsins snemma árs 1992. Flest þau ár sem Samherji hefur gert skipið út hefur það verið aflahæst og verið með einna mest aflaverðmæti hérlendra fiskiskipa. Á þeim níu árum sem Samherji hefur gert það út er heildarafli þess tæplega 70 þúsund tonn. Hannover NC-100 er 1.225 brúttólestir að stærð, smíðað árið 1994. Unnið er að gerð samninga við skipasmíðastöð í Lettlandi um gagngerar breytingar á skipinu. Áætlað er að lengja Hannover um 18 metra og breyta því í fjölveiðiskip, svipuðu Vilhelm Þorsteinssyni EA-11. Gert er ráð fyrir að ráðist verði í þessar breytingar fljótlega á nýju ári og að Samherji geti sent skipið á veiðar í lok maí n.k. Áætlaður kostnaður við breytingarnar á Hannover er um 400 milljónir króna. Eftir breytingarnar verður Hannover 85 metrar að lengd og frystilestar skipsins um 1600 rúmmetrar að stærð, sem er allt að helmings aukning frystirýmis frá því sem nú er. Nú eru um borð í Hannover fullkomnar vinnslulínur fyrir bolfisk og rækju, en jafnhliða lengingu skipsins verður þar komið fyrir vinnslulínu fyrir uppsjávartegundir. Gert er ráð fyrir að skipið geti fryst 140-150 tonn af uppsjávarfiski á sólarhring og það geti borið um 750 tonn af afurðum, eða um 600 tonn ef afurðunum er komið fyrir á brettum í frystilest. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir í tilkynningu að bolfiskkvóti félagsins hafi verið skertur og jafnframt hafi aflaheimildir verið fluttar frá stærri skipunum til smábátaútgerðarinnar. Við þessum breyttu aðstæðum þurfi Samherji að bregðast. Reynslan af útgerð Vilhelms Þorsteinssonar EA-11 sé mjög góð og ástæðu sé talin til þess að leggja frekari áherslu á uppsjávarveiðina. Bolfiskheimildir sem skráðar eru á Baldvin Þorsteinsson verði fluttar yfir á önnur skip félagsins og þannig sé skipastóllinn nýttur betur að hann lagaður að skertum aflaheimildum. Jafnframt sjái stjórnendur Samherja fyrir sér að félagið fari að nýta að hluta rækjukvóta sinn á Flæmska hattinum til að tryggja betur hráefnisöflun fyrir Strýtu, rækjuverksmiðju Samherja á Akureyri. Baldvin Þorsteinsson mun fara í sína síðustu veiðiferð undir merkjum Samherja strax eftir áramót og síðan verður skipið afhent nýjum eiganda í febrúar. Hannover er hins vegar þessa dagana í sinni síðustu veiðiferð fyrir DFFU og verður það síðan afhent Samherja í næsta mánuði. Áhöfn Baldvins Þorsteinssonar verður sagt upp um áramótin og verður leitast við að bjóða henni störf á öðrum skipum félagsins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert