Ölvunar- og hraðakstur ekki sannaður

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað rúmlega tvítugan karlmann af ákæru fyrir að aka bíl undir áhrifum áfengis og að aka á 150 km hraða þar sem hámarkshraði var 60 km á klukkustund. Maðurinn var hins vegar sektaður um 10 þúsund krónur fyrir að sinna ekki stöðvunarmerkjum lögreglunnar.

Lögreglan var við umferðareftirlit á Kalkofnsvegi við Sæbraut um nótt í júlí. Var stöðvuð bifreið og haft tal af ökumanni. Hann var látinn blása í öndunarmæli og eftir það þótti ástæða til að kanna málið nánar og var maðurinn beðinn um að drepa á bíl sínum og koma yfir í lögreglubifreið. Þess í stað gaf hann allt í botn, eins og segir í lögregluskýrslu og ók á brott og var honum veitt eftirför austur Sæbraut. Í skýrslunni segir að ökuhraði ákærða hafi verið um 150 km á klst. en það hafi verið ökuhraði lögreglubifreiðarinnar sem eftirförina veitti og dregið hefði í sundur með bílunum. Ekki tókst að hafa upp á bifreið mannsins fyrr en síðar um nóttina, en þá var bifreiðin mannlaus við Selvogsgrunn. Maðurinn var handtekinn þar sem hann var á gangi í Skipholtinu sömu nótt.Maðurinn viðurkenndi að hafa ekið bílnum á brott frá lögreglunni, sem stöðvað hafði akstur hans. Hann neitaði að hafa fundið til áfengisáhrifa við aksturinn og efaðist um að hafa ekið á 150 km hraða. Fram kom að tvær stúlkur, sem voru með honum í bílnum, báru að áfengi hefði ekki verið haft um hönd í bílnum en þau hefðu drukkið áfengi eftir að þau skildu bílinn eftir.Í niðurstöðu héraðsdóms segir að ekki sé hægt, gegn neitun ákærða, að fullyrða að hann hafi ekið á allt að 150 km hraða undir áhrifum áfengis. Lögreglumenn, sem veittu bifreið mannsins eftirför, töldu að bilið á milli lögreglubifreiðarinnar og bifreiðar hefði breikkað er ökuhraði lögreglubifreiðarinnar var 150 km á klst. en þá var lögreglubifreiðin við Höfðatún, en bifreið mannsins við Kirkjusand. Nákvæmari mæling á ökuhraðanum fór ekki fram og áætlun lögreglumannanna um ökuhraðann sé mjög ófullkomin.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert