Þingmaður víttur fyrir ummæli í fyrsta sinn í áratugi

Forseti Alþingis greip í dag til þess ráðs að víta Ögmund Jónasson, formann þingflokks Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, fyrir ósæmileg ummæli í sinn garð. Atburðurinn varð við umræður um störf þingsins í upphafi þingfundar í dag, en Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, lýsti þá áhyggjum af byggðaþróun í landinu.

Forseti hafði lýst samkomulagi forsætisnefndar og formanna þingflokka um starfsáætlun þingsins þegar Ögmundur greip tvívegis inn í málflutning hans með frammíköllum. Fór svo að Halldór Blöndal, forseti Alþingis, bað þingmanninn um að grípa ekki frammí fyrir forseta þingsins þegar hann talaði. „Það þekkir hann allavega, háttvísina," gall þá í Ögmundi og þegar komu fram í sal óskir um vítur á hendur þingmanninum fyrir ummæli sín. Fór svo að forseti vítti þingmanninn fyrir ummæli sín, en þetta er í fyrsta sinn í áratugi sem þingmaður er víttur fyrir ummæli sín á þingi. Þingreyndir menn telja að leita þurfi aftur svo langt sem 40 til 50 ár til þess að finna síðustu vítur forseta á hendur þingmanni fyrir ummæli.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert