Guðmundur leystur frá störfum tímabundið

Guðmundur Magnússon
Guðmundur Magnússon mbl.is

Guðmundur Magnússon hefur verið leystur frá störfum forstöðumanns Þjóðmenningarhúss tímabundið. Davíð Oddsson forsætisráðherra upplýsti þetta í ræðustóli á Alþingi rétt í þessu. Sveinn Einarsson, rithöfundur, leikstjóri og fyrrverandi leikhússtjóri, hefur verið skipaður forstöðumaður Þjóðmenningarhússins um stundarsakir. Bréf forsætisráðherra til Guðmundar Magnússonar, forstöðumanns Þjóðmenningarhússins, er svohljóðandi:

Ríkisendurskoðun hefur í hjálagðri greinargerð, dags. 4. þ.m., gert alvarlegar athugasemdir við fjárreiður, störf og aukastörf yðar sem forstöðumanns Þjóðmenningarhússins. Þau atriði, sem þar um ræðir, varða sérstaka vinnu eða verkefni fyrir Þjóðmenningarhúsið annars vegar og Þjóðskjalasafnið hins vegar, tímabundinn ráðningarsaming við eiginkonu yðar auk verktakagreiðslna til hennar, lántöku yðar úr sjóði stofnunarinnar, ferðakostnað, sem ekki tengist stofnuninni, og greiðslur fyrir akstur. Greinargerð þessi var birt yður með erindi mínu til yðar, dags. 7. s.m., þar sem fram kom að fallist væri á niðurstöður Ríkisendurskoðunar og talið að sú framkvæmd, sem stofnunin gerði athugasemdir við, væri í mörgum tilvikum ámælisverð. Auk þeirra athugasemda, er fram koma í greinargerð Ríkisendurskoðunar, hefur stjórn Þjóðmenningarhússins jafnframt lýst því yfir, að samþykkt er hún gerði, um greiðslu eftirvinnu til yðar, hafi byggst á röngum upplýsingum frá yður. Með vísan til framangreindrar greinargerðar Ríkisendurskoðunar og þeirra athugsemda sem stofnunin gerir varðandi embættisfærslu yðar og yfirlýsingar stjórnar Þjóðmenningarhússins um upplýsingagjöf yðar til hennar, er yður hér með veitt lausn frá embætti um stundarsakir skv. 3. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ákvörðun þessi er hér með birt yður og öðlast þegar gildi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert