"Svona menn eiga ekki skilið virðingu samborgara sinna"

Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar.
Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ásdís

Stjórnendur Baugs hf. sögðu fyrir skömmu upp samningi við ræstingafyrirtæki, sem annaðist ræstingar á skrifstofum fyrirtækisins. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var ástæða uppsagnarinnar sú að fram kom á eftirlitsmyndavél að starfsmaður ræstingafyrirtækisins var að róta í skjölum eins af yfirmönnum Baugs.

Jafnframt hefur blaðið upplýsingar um að Össur Skarphéðinsson hafi sem einstaklingur mótmælt mjög harðlega þessum brottrekstri við stjórnendur Baugs í tölvubréfi og talið þær hefndaraðgerð gegn sér vegna gagnrýni, sem hann hefði sett fram á fyrirtækið. Taldi að verið væri að ná fram hefndum vegna skoðana minna Morgunblaðið leitaði til Össurar og óskaði eftir skýringum hans á afskiptum hans. „Ég hef haft uppi skarpa gagnrýni á samþjöppun á þeim markaði sem Baugur starfar á. Nákominn ættingi minn rekur ræstifyrirtæki, sem hefur ræst þrjú fyrirtæki fyrir Baug. Hann hafði komið tvisvar sinnum að máli við mig og sagt að hann fyndi að skörp gagnrýni mín á fyrirtækið hefði leitt til þess að hann drægi þá ályktun af ummælum manna að það gætu verið blikur á lofti fyrir hann. Ég taldi það af og frá og sagði að slíkt ætti sér ekki stað á Íslandi. Síðan gerðist það að það birtist eftir mig lítið álit um samþjöppun á matvörumarkaði í Viðskiptablaðinu sl. miðvikudag. Hann tjáði mér að þann dag hefði hann verið kallaður fyrir yfirmenn í fyrirtækinu [Baugi] og honum tjáð að hann fengi ekki að starfa fyrir þessi þrjú fyrirtæki. Ég varð ákaflega hryggur og taldi að þarna væri verið að ná fram einhvers konar hefndum vegna skoðana minna með því að seilast til ættingja sem mér þykir mjög vænt um. Ég varð því bæði mjög hryggur og reiður. Mér hefur síðar verið sagt að uppsögnin stafi af öðru, þ.e.a.s. því að starfsmaður fyrirtækis ættingja míns hafi ekki komið fram með réttum hætti í einu og öllu, en mér finnst það auðvitað öldungis fráleitt að þó að starfsmaður sýni ekki rétta framkomu, þá sé fyrirtækinu án nokkurrar áminningar eða aðdraganda sagt upp störfum. Ég dyl það ekki, að ég hef tjáð mig sterklega í trúnaðarbréfi til starfsmanna fyrirtækisins vegna þess að ég taldi að hér væri um hefndaraðgerðir að ræða,“ sagði Össur og bætti við: „Sú skýring, sem ég fékk síðan var að nýr starfsmannastjóri vildi hafa innanhússtarfsmenn í þessu verki.“ Segir mönnum mjög brugðið Morgunblaðið sneri sér til Hreins Loftssonar, stjórnarformanns Baugs, sem staðfesti að stjórnendum Baugs hefði borist tölvuskeyti frá Össuri. Hann sagði að tölvuskeytið hefði farið sem eldur í sinu um fyrirtækið og mönnum hefði brugðið mjög við þessi tíðindi. Síðan sagði Hreinn: „Ég sem stjórnarformaður fyrirtækisins get ekki annað en tekið það mjög alvarlega þegar einn af málsmetandi stjórnmálaleiðtogum sendir fyrirtækinu skeyti af þessu tagi en skeytið er svohljóðandi: „Í trúnaði fyrir þig og Jóhannes Heill og sæll Jón Einsog þú veist ráku feðgarnir Jóhannes og Jón Ásgeir bróður minn Magnús frá ræstingum í þremur fyrirtækjum þeirra í dag. Auðvitað er það ekkert annað en hrein hefndaraðgerð vegna skoðana minna. Gangsteraeðli þeirra birtist í því að þeir velja daginn sem Viðskiptablaðið birtir lítið komment frá mér um það efni. Það eru aðeins hreinræktaðir drullusokkar sem ráðast að þeim sem ekki geta varist, í þessu tilviki ættingjum sem enga ábyrgð bera á ummælum mínum. Svona menn eiga ekki skilið virðingu samborgara sinna. Því ætla ég að koma til skila. Þeir haga sér einsog suðuramerískir gangsterar, og þjóðin á rétt á að vita það. Ég mun því ekki láta þetta kyrrt liggja, og ætla heldur aldrei að gleyma þessu. Ættin er giska langlíf, einsog þú kannski veist. Sá kann allt sem bíða kann, kenndi Sveinn R. Eyjólfsson mér. Ef Baugsveldið heldur að þetta sé aðferðin til að þagga niður í mér get ég ekki varist þess að upp í hugann komi hin fræga setning: You aint’ seen nothing yet. Það má vel vera að ég hafi lítið að gera í þessa nýju mafíu. En mér er létt um mál, og lipur með pennann, og ég á langa ævi fyrir höndum til að lýsa fyrir samferðamönnum mínum hverskonar menn þetta eru. Í guðs friði – en ekki mínum,
Össur Skarphéðinsson, líffræðingur, Vesturgötu 73, 101 R.“ “ Segir Össur hafa fylgt skeytinu eftir með hatursfullu símtali Hreinn Loftsson sagði það í fyrsta lagi vekja athygli að skeytið væri sent á tölvukerfi Alþingis. „Í öðru lagi hefur viðkomandi stjórnmálamaður ekki haft fyrir því að kynna sér forsendur málsins af hálfu Baugs áður en hann sendi skeytið og hann fylgdi skeytinu eftir með hatursfullu símtali með sömu ásökunum. Símtalið fékk Jóhannes Jónsson eftir því sem Jóhannes segir mér. Kom það Jóhannesi á óvart, en hann er erlendis og var ókunnugt um málið þegar Össur hringdi. Í þriðja lagi sýnir þetta ótrúlegan dómgreindarskort. Jóhanna Sigurðardóttir hefur talað um að þingmenn þyrftu að setja sér siðareglur. Hún þyrfti kannski að byrja á formanninum sínum og taka hann á slíkt námskeið um samskipti stjórnmálamanna við borgarana," sagði Hreinn. Spurður um upphafsorð bréfsins, þar sem segir að það sé sent í trúnaði fyrir viðtakanda og Jóhannes, sagði Hreinn: „Maður sem viðhefur slíkar hótanir og biður um trúnað hlýtur að vera að grínast."
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert