Stjörnubíó hættir starfsemi

Kvikmyndahúsið Stjörnubíó, sem rekið hefur verið við Laugaveg í rúm 50 ár, hætti starfsemi á föstudag. Segir framkvæmdastjóri kvikmyndadeildar Norðurljósa fyrirtækið í viðræðum við aðila sem hafa lýst áhuga á að festa kaup á húsinu.

Í auglýsingum sem birtust í Morgunblaðinu þakkaði Stjörnubíó gestum sínum fyrir komuna í húsið síðastliðna hálfa öld. Björn Sigurðsson, framkvæmdastjóri kvikmyndadeildar Norðurljósa, segir vissulega vera eftirsjá að kvikmyndahúsinu, enda hafi það verið starfandi í rúm 50 ár. „Þetta á nú ekki að koma á óvart því húseignin hefur verið auglýst til sölu og það eru nokkrir aðilar búnir að sýna áhuga en við erum að skoða þau mál. Það hefur staðið til hjá okkur að loka Stjörnubíói allt frá því að við opnuðum Smárabíó í Smáralindinni og við ákváðum að nota þennan tímapunkt til þess. Við erum með annan kvikmyndahúsarekstur í miðbænum sem er Regnboginn og það er óhætt að segja að við værum ekki að loka bíóinu nema vegna þess að aðsóknin að því hefur verið að dala undanfarin ár og mánuði.“ Björn segir nýja kynslóð kvikmyndahúsa, á borð við Smárabíó, draga kvikmyndahúsagesti í æ ríkari mæli til sín. „Þá er mjög erfitt að vera með þrjú bíóhús í miðbænum nánast á saman punktinum. Við styrkjum bara hin húsin okkar á móti og sýnum þar þær myndir sem annars hefðu farið í Stjörnubíó.“
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert