Sögulegur sigur FB á Verzló í undanúrslitum Morfís

Sögulegur atburður gerðist á föstudaginn í ræðukeppni framhaldsskólanna þegar Fjölbrautaskólinn í Breiðholti vann Verzlunarskóla Íslands í undanúrslitum MORFIS, í æsispennandi keppni. Heildarstig voru 3060 og var munurinn aðeins 12 stig. Umræðuefnið var nördar og voru FB með en Verzló á móti.

Fjölbrautaskólinn í Breiðholti hefur aðeins náð í úrslit einu sinni og það var árið 1996, en þá sigraði skólinn í keppninni. Ræðumenn í liði FB eru allt nemendur á fyrsta ári og slíkt lið hefur aldrei áður komist í úrslit í sögu MORFÍS eftir því sem næst verður komist. Kvennaskólinn í Reykjavík og Menntaskólinn við Hamrahlíð eigast við í hinni undanúrslitaviðureigninni á fimmtudaginn, 21. mars, og þar er umræðuefnið rómantík, MH með, Kvennó á móti.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert