Eftirliti ábótavant með vélbúnaði

Rannsóknarnefnd sjóslysa segir í nýrri skýrslu að orsakir þess að Núpur BA strandaði rétt vestan við Patreksfjörð 10. nóvember sl. megi rekja til bilunar í aðalvélarbúnaði skipsins. Nefndin telur allar líkur benda til þess að eftirlit með vélbúnaði hafi verið ábótavant, og það hafi leitt til vélarbilunarinnar.

Núpur var á leið til hafnar í Patreksfirði snemma morguns þegar vél skipsins bilaði og rak það á tíu mínútum upp í fjöru, rétt utan við Vatneyri, um einn kílómetra frá bænum. Veður var slæmt og talsvert brim í fjöruborðinu. Fjórtán manns í áhöfn sakaði ekki og var bjargað í land af björgunarsveitum á staðnum.

Sex af tólf með brotna gorma

Í skýrslu sjóslysanefndar segir að vatn og óhreinindi hafi verið í brennsluolíukerfi skipsins og spíssar hafi verið af sömu orsökum ryðgaðir. Sex af tólf spíssum voru með brotna gorma. Nefndin telur sömuleiðis ámælisvert að þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir hafi lélegt olíurennsli ekki verið athugað. Fram kom í útskrift úr hugbúnaði rafeindastýrðra gangráða að öryggisbúnaður aðalvélarinnar hefði gefið til kynna í 105 skipti síðustu 679 vélarstundir lélegt olíurennsli til vélarinnar. Vélstjórar höfðu ekki orðið varir við þessar aðvaranir.

Þegar vélarvörður Núps kom í vélarrúmið varð hann þess var að tölva var ekki í sambandi. Opnaði hann stjórnpúltið og sá þá að miðöryggi hægra megin var útslegið. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tókst ekki að láta aðalvélina ganga en hún tók við sér nokkrum sinnum. Fram kom við rannsóknina að sama öryggi hefði slegið út einu sinni áður, þ.e. í september 2001, en málið ekki verið athugað frekar að sögn skipverja. Einnig kom fram að festingar akkera voru fastar, þannig að þegar á reyndi gátu skipverjar ekki losað þau og látið falla.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka