Kirkjuklukka í Skálholti féll niður í miðri messu

Kirkjuklukka í Skálholtskirkju féll niður og brotnaði við upphaf hátíðarmessu í lok Skálholtshátíðar um miðjan síðasta sunnudag. Þrír boltar sem héldu klukkunni uppi gáfu sig og heyrðist mikill dynkur þegar klukkan, sem mun vera um 400 kg að þyngd, féll niður á gólf. Hátt á þriðja hundrað kirkjugesta var í kirkjunni og mun þeim hafa brugðið við dynkinn.

Sr. Egill Hallgrímsson, sóknarprestur í Skálholti, segir að fall klukkunnar hafi verið innan við tvo metra. Klukkan hafi brotnað í tvennt a.m.k. og segir Guttormur Bjarnason staðarhaldari að þegar hafi verið haft samband við fyrirtæki sem taka að sér að gera við slíkar klukkur og að ljóst sé að gert verði við klukkuna. Hann segir ómögulegt að segja til um viðgerðarkostnað að svo stöddu sem og um virði klukkunnar sjálfrar. Alls voru fimm klukkur í turninum og segir hann að vandi yrði að finna klukku sem hefði sama tón og sú sem brotnaði. Klukkan er úr koparblöndu og segir Egill að hún gæti verið um metri á hæð og eitthvað svipað á breidd. Klukkan er gjöf frá Dönum og stendur ártalið 1960 á henni. Guttormur telur þó að hún sé eldri, segir að gert hafi verið við hana áður en hún kom til Íslands.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert