Þrír menn handteknir eftir fólskulega árás

Þrír menn voru handteknir eftir afar fólskulega líkamsárás í Vesturbæ Reykjavíkur um hádegisbil í gær. Maðurinn sem ráðist var á slasaðist alvarlega á höfði og gekkst hann undir aðgerð á Landspítala - háskólasjúkrahúsi í gær.

Talið var líklegt að krafist yrði gæsluvarðhalds yfir árásarmönnunum í dag, laugardag.

Miklu liði lögreglumanna var stefnt á staðinn, enda ljóst af tilkynningu að um alvarlega líkamsárás væri að ræða. Þegar lögregla kom á vettvang lá fórnarlambið meðvitundarlaust á göngustíg milli Seilugranda og Tjarnarmýrar. Árásarmennirnir voru á bak og burt en lögregla hafði þó fljótlega uppi á tveimur þeirra við Eiðistorg á Seltjarnarnesi. Annar þeirra var handtekinn við verslun ÁTVR en hinn var kominn langleiðina út að bensínstöð Skeljungs við Austurströnd þegar lögregla handsamaði hann.

Í tengslum við rannsókn lögreglunnar fór fram rannsóknarvinna í íbúð í Vesturbænum. Árásarmennirnir voru taldir undir áhrifum áfengis eða fíkniefna og mun hafa verið um að ræða föður um fimmtugt með sonum sínum tveimur um tvítugt. Hafa þeir komið við sögu lögreglunnar áður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert