Selkópsins Lúlla er enn sárt saknað í dýragarðinum í Slakka í Laugarási í Biskupstungum. Engar vísbendingar hafa komið fram um hvarf hans, að sögn Helga Sveinbjörnssonar, eins eigenda dýragarðsins, en einna helst er talið að honum hafi verið rænt. Helgi telur að minnsta kosti litlar líkur á því að Lúlli litli hefði getað strokið af bæ einn og óstuddur.
Tilkynnt var um hvarf Lúlla til lögreglu á þriðjudaginn en daginn áður hafði verið gerð dauðaleit í nágrenninu að kópnum. Lúlli litli labbakútur er landselskópur sem fannst einn og yfirgefinn í Vík í Mýrdal í vor en fékk síðar heimili í Slakka. Lúlli hefur aldrei reynt að strjúka og virðist hafa líkað vistin vel.